Er algjör sælkeri og elskar að baka

Anna Jia hefur áhuga á bakstri og matargerð.
Anna Jia hefur áhuga á bakstri og matargerð. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Anna Jia hefur mikinn áhuga á bakstri og matargerð. Hún er dugleg að prufa nýjungar og þróar uppskriftirnar áfram sjálf. „Þegar maður er búin að baka eitthvað oft er gaman að breyta aðeins til og prufa að bæta nýjum hráefnum við.“ Sítrónukaka er í algjöru uppáhaldi hjá Önnu en hún hefur einnig gaman að því að elda. „Pabbi er algjör meistarakokkur og mér finnst gaman elda asískan mat með honum.“ Anna setur nú stefnuna á að byrja með sitt eigið matarblogg en hingað til hefur hún verið dugleg við að deila matarmyndum á Instagram-síðu sinni.

Hvernig fékkstu áhugann á bakstri?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bakstri. Allt frá því að ég var lítil hefur mér fundist mjög gaman að baka og elskaði að hjálpa mömmu við jólabaksturinn. Ég er líka algjör sælkeri þannig að mér finnst afar gaman að búa til eitthvað gott. Þetta er líka svo róandi, ég dett bara í einhvern gír og geta verið að baka í marga tíma án þess að taka eftir því.“

Ávaxta- og hnetukaka með Tia Maria og ferskjufyllingu.
Ávaxta- og hnetukaka með Tia Maria og ferskjufyllingu. Ljósmynd/Anna Jia

Hvað ertu aðallega að baka?

„Oft er það bara eitthvað girnilegt sem ég sé á netinu og langar að prófa að gera. Stundum þegar vinirnir eða fjölskyldan eru líka búin að tala lengi um eitthvað þá baka ég fyrir þau og líka ef einhver á afmæli. Það finnst öllum gott að fá smá sætindi og svo er líka bara gaman að gleðja fólk.“

Er einhver ákveðin kaka í uppáhaldi?

„Mér finnst sítrónukaka mjög góð. Ég elska reyndar sítrónu allt – mér finnst það ferskt og sætt. Ég gerði líka mjög gott „berjapæ“ í vetur en svo er bananabrauð alltaf klassískt.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

„Ég elska allan sterkan mat og finnst kínverskur matur mjög góður. Asísk matargerð er svo ólík þeirri íslensku. Þar hjálpast fjölskyldan að og eldar saman en á Íslandi er það oftast bara einhver einn sem tekur að sér að elda. Pabbi er algjör meistarakokkur þannig að ég reyni að læra sem mest af honum. Það getur þó reynst erfitt að fá hráefni hér á Íslandi í asíska matargerð.“

Sunnudags gulrótarkaka.
Sunnudags gulrótarkaka. Ljósmynd/Anna Jia

 Hér kemur uppskrift af sumarsítrónukökunni sem er í uppáhaldi Önnu 

  • 1/2  bolli kókosolía/ólífuolía
  • 3/4 bolli hunang/sykur
  • 3    stór egg
  • 2/3 bolli (grískt) jógúrt/skyr
  • 1/4 bolli sítrónusafi
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 tsk. sítrónubörkur (rifinn)
  • 1 1/2 bolli hveiti/heilhveiti/hafrahveiti
  • 3/4 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1/4 tsk. salt

Krem 

  • 1 bolli flórsykur
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 1 msk. mjólk - til að fá kremið hvítt á litinn

Best að setja alltaf vel af sítrónusafanum. Kakan er formkaka og bökuð við 175° blástur í um það bil fjörutíu mínútur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert