Maíssalat með feta

Maís er frábært meðlæti með margs konar mat, ekki síst grilluðu kjöti. Þetta salat á t.d. sérstaklega vel við grillaðan kjúkling. Það er best að nota ferska maísstöngla sem yfirleitt má fá í búðum en það er einnig hægt að nota frosin maís eða jafnvel úr dós. Miðið þá við um 400 grömm af maís.

  • 4-5 vænir maísstönglar
  • 1/2 fetakubbur
  • 1 rauðlaukur, fínt saxaður
  • 1 lúka fínt saxaður kóríander
  • klípa af chiliflögum
  • safi úr einni límónu
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar

Byrjið á því að elda maísstönglana, annað hvort í ofni eða á grilli. Leiðbeiningar um hvernig grilla á maís finnið þið hér.

Skerið endana af stönglunum og hreinsið utan af þeim. Skerið maískornin af stönglunum með því að renna hnífi niður eftir þeim.

Hitið smjörið á pönnu, bætið chiliflögunum út. Setjið laukinn á pönnuna og mýkið í nokkrar mínútur á miðlungshita. Blandið þá maískornunum saman við og hitið vel.

Kreistið límónu saman yfir og blandið saman við. Slökkvið á hitanum og blandið söxuðum kóríander og fetaostinum saman við.

Bragðið til með salti og pipar og berið strax fram.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert