Heimagert súrdeigsbrauð að hætti Ragnars

Súrdeigsbrauðið girnilega.
Súrdeigsbrauðið girnilega. http://www.laeknirinnieldhusinu.com/

„Síðan að ég gerði súrdeigsbrauð frá grunni í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum, þá í undirbúningi fyrstu bókarinnar minnar - Tími til að njóta, hef ég endurtekið leikinn nokkrum sinnum. Nú baka ég nær einvörðungu súrdeigsbrauð. Einhvern veginn hef ég bitið það í mig að það hljóti að vera hollara - þó ég hafi ekki rannsakað það neitt sérstaklega,“ skrifar Ragnar Freyr Ingvarsson í sinn nýjasta pistil.

„Það tekur eina til tvær vikur að undirbúa gerið. Og það er eins einfalt og hugsast getur. Bara hræra nokkrum hveititegundum saman við vatn og láta standa við herbergishita í tvo til þrjá daga og þannig fanga vilt ger sem er allt um kringum okkur! Eftir nokkra daga kemur dásamlegur blómlegur ilmur af súrdeiginu og þá er það tilbúið til notkunar.“

Meðfylgjandi er uppskriftin af brauðinu.

Súrdeig:

  • 5 dl vatn
  • 100 g hveiti
  • 50 g heilhveiti
  • 50 g rúgmjöl
Súrdeigið undirbúið.
Súrdeigið undirbúið. http://www.laeknirinnieldhusinu.com/

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í krukku og hrærið vel. Látið standa við herbergishita í rúma viku. Hrærið í því tvisvar á dag. Eftir vikuna er súrdeigið tilbúið. Hægt er að geyma það við stofuhita en ef ætlunin er að geyma deigið í einhvern tíma er ráðlegt að hafa það í ísskáp. Þegar tekið er af súrdeiginu er álíka magni af vatni og hveiti bætt í aftur til að halda því súra í gangi.

Stór brauðhleifur:

  • 75 ml súrdeig
  • 10 g ferskt pressuger
  • 400 ml kalt vatn
  • 2 tsk salt
  • 600 g hveiti

Aðferð:

Blandið súrdeiginu, vatninu og pressugerinu vel saman í hrærivél. Bætið því næst hveitinu og saltinu við og blandið saman. Látið hnoðast vel og rækilega í tíu til fimmtán mínútur. Smyrjið aðra skál með olíu og færið deigið yfir í hana og látið standa í kæli yfir nótt. Hitið ofninn í 200 gráður þegar kemur að bakstrinum. Setjið ofnpott inn í ofninn svo að hann hitni einnig. Þegar ofninn er orðinn heitur er deiginu velt varlega ofan í ofnpottinn, lokið sett á og brauðið bakað í 40 mínútur. Hafið lokið ekki á pottinum síðustu tíu mínúturnar til að brauðið fái fallegri lit. Takið brauðið úr pottinum og látið kólna í 30 mínútur áður en það er skorið.

Pistil Ragnars má lesa í heild sinni á blogginu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert