Fiski taco með lime og kóríander “Crema”

Íbúar vesturstrandar Mexíkó hafa líklega borðað fisk sem tortilla-pönnukökur hafa verið vafnar um í einhverjar aldir. Það var hins vegar fyrir um hálfri öld sem að fiski taco fór að slá í gegn í Baja California og litlir veitingastaðir sem buðu upp á þennan rétt spruttu upp eins og gorkúlur. Á síðustu ár hafa Bandaríkjamenn einnig tekið þennan rétt upp á arma sína.

Upphaflega var fiskurinn yfirleitt í einhvers konar raspi og djúpsteiktur, borinn fram með káli, sósu úr sýrðum rjóma (crema) eða majonnesi og lauk. Og að sjálfsögðu í tortilla því að þótt að þótt margir tengi “taco” við harðar skeljar þá er alvöru taco í tortilla-pönnukökum. Hitt er uppfinning bandarískra skyndibitakeðja.

Í þessari uppskrift notum við lax þó svo að í flestum uppskriftum mexíkó sé notaður hvítur fiskur (þorskur er frábær í fiski taco) og með honum yndislega crema-sósu.

Byrjið á því að setja fiskinn í fat. Kryddið með chili-kryddi, cummin, saltið og piprið. Kreistið vel af lime-safa yfir. Látið liggja í marineringunni í 15 mínútur. Eldið síðan fiskinn í ofni eða grillið.

Lime og kóríander Crema

  • 1 dós sýrður rjómi (18%)
  • rifinn börkur af 1 lime
  • safi úr 1/2 lime
  • lúka af fínt söxuðum kóríander
  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 rauður chili, mjög fínt saxaður
  • 1/2 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Blandið vel saman og geymið í ísskáp.

Þá er komið að því að setja saman pönnukökurnar. Setjið smá af söxuðum tómötum, fínt söxuðum kóríander og vorlauk á hverja pönnuköku. Þá Crema-sósuna og síðan fiskinn. Loks smá smá af chili-sósu, t.d. Shriracha-sósu.

Meira mexískóskt finnið þið með því að smella hér. 

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert