Korter í kvöldmat

Óskar tók sér frí frá Barcelona til að kenna Íslendingum …
Óskar tók sér frí frá Barcelona til að kenna Íslendingum að elda einfaldan og bragðgóðan heimilismat. mbl.is/Ásdís

Ástríðukokkurinn Óskar Finnsson er mörgum Íslendingum kunnur. Hann lýsir hér ástríðu sinni fyrir mat sem hefur fylgt honum alla ævina og segir frá nýjum þætti.

Óskar ætlar að kenna Íslendingum að elda bragðgóðan kvöldmat, sem allir í fjölskyldunni verða sáttir við, í stuttum þáttum á mbl.is. Sunnudagsblaðið mun fylgja þáttunum eftir og kenna fólki að nýta matinn betur og búa til veislumat úr afgöngum. Fyrsti þáttur af tólf fer í loftið á mbl.is 12. nóvember. 

Hann segist hugsa um mat allan daginn og á sér engin önnur áhugamál. Óskar Finnsson, sem býr í Barcelona, er kominn til landsins til að kenna Íslendingum að elda kvöldmat á auðveldan og hagkvæman máta í stuttum þáttum sem sýndir verða á mbl.is.

Mætti seint fyrsta daginn á Ask

Óskar kann sitt lítið af hverju fyrir sér í eldamennsku, er óhætt að segja, en hann hefur eldað mat frá unga aldri. „Allt mitt líf, frá því ég var fimmtán ára gamall, hefur snúist um mat. Ég var byrjaður að fikta við mat svona 13-14 ára og það var mamma sem ýtti við mér að fara að læra þetta. Mamma var rosa matarkona. Líf hennar snerist um hvað ætti að borða. Hún var aldrei búin að kyngja síðasta munnbitanum þegar hún var farin að tala um hvað við ættum að elda á morgun,“ segir hann en sextán ára fór hann í læri á Aski á Suðurlandsbraut. Þá flutti hann suður aleinn frá Seyðisfirði og leigði sér herbergi í Vesturbænum. „Ég gleymi ekki fyrsta deginum. Ég átti að mæta á Ask í kokkagalla og öllu. Það var búið að segja að ég ætti að taka Þristinn og skipta á Hlemmi og taka Tvistinn upp á Suðurlandsbraut. Þetta var á laugardagsmorgni og ég tek Þristinn og kem upp á Hlemm. Svo tók ég Tvistinn en þá fór hann bara út á Granda og stoppaði þar í korter, tuttugu mínútur og ég kom seint fyrsta daginn! Ég fattaði ekki að strætó gengi í tvær áttir. En, þetta var í eina skipti á fjórum árum sem ég kom of seint í vinnuna,“ segir hann brosir.

Gifti sig á opnunardegi Argentínu

Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan ungi maðurinn í kokkabúningnum mætti of seint í fyrstu vinnuna, en Óskar á að baki langan feril í kokkamennskunni. Hann kláraði að læra á Aski en þá var auglýst eftir matreiðslumeistara á Hótel Valhöll sem þá var verið að opna aftur eftir veturinn. „Ég fer og sæki um, 21 árs gamall og það var sagt, nei, við erum að leita að reynslumiklum manni. Ég sagði, ég skal gera allt! Ég fékk þessa vinnu og kláraði sumarið og þá var kominn svo mikill metnaður í mig að ég vildi bara fara til útlanda og læra á einhverjum Michelin-stað en þá var ég kominn með konu sem átti eitt barn. Þá fór ég til Luxemborgar og gat fengið geggjaða vinnu á Michelin-stað. En þeir buðu mér launalaust í eitt ár gegn því að ég fengi meðmælabréf,“ segir hann en það gekk ekki fyrir ungan mann með litla fjölskyldu. „Þannig ég kom heim í október og var atvinnulaus. Konan vann þá á Aðalstöðinni og sá að það ætti að opna nýjan stað og hringdi í mig og sagði, heyrðu, það eru einhverjir menn að fara að opna steikhús, á ég að spyrja hvort þá vanti einhvern í vinnu? Já sagði ég, flott. Og Argentína opnar svo 27. október 1989, sama dag og ég gifti mig en ég var í fríi,“ segir Óskar. Nokkrum mánuðum eftir opnun leigði Óskar og vinur hans, Kristján Þór Sigfússon staðinn og ári seinna keyptu þeir Argentínu. „Og þar hófst mín veitingasaga.“

London og Barcelona

Síðustu fjögur ár hefur hann búið ásamt konu sinni og yngsta syni í Barcelona en þau hjónin hafa starfað sem Herbalife Lífsstílsleiðbeinendur síðustu átján ár. Óskar hefur tekið að sér mörg verkefni í gegnum árin. Áður en þau fluttu til Spánar bjuggu þau átta ár í London en þar tók Óskar þátt í að koma á laggirnar Texture, veitingastað sem hefur slegið í gegn þar ytra. Óskar segir Agga (Agnar Sverrisson), yfirkokkinn þar, vera í algerum sérflokki. „Hann er ekki besti kokkur Íslands. Hann er langbestur,“ segir hann og leggur áherslu á orð sín. „Það er Björk, Eiður Smári, Vigdís Finnboga, Aggi. Það eru örfáir Íslendingar sem eru bara á allt öðrum stalli,“ segir Óskar sem var þar mörgum sinnum í viku fyrstu árin „að aðstoða Agga við allt og ekkert“ eins og hann orðar það.

Herbalife borgar fyrir áhugamálið

„Það hafa verið forréttindi fyrir mig að vera minn eigin herra því ég hef haft nægan tíma til að sinna áhugamáli mínu. Sem er bara matur! Ég er bara matarfíkill. Ég lifi og hrærist í mat,“ segir hann. Ég undra mig á að holdafarið sýni það ekki, enda Óskar grannur maður. „Það var nú þarna árið 1997, þá fékk ég símtal frá gamalli vinkonu, Margréti Hrafnsdóttur, sem benti mér kurteisislega á það að hún hefði séð mynd af mér í Mogganum. Veistu Óskar, þú ert ekki orðinn þrítugur og þú ert bara kominn með velmegunarbumbu. Þú ert bara kominn með ístru!,“ segir hann að hún hafi sagt og segir það hafa ýtt við sér. Hann fær sér Herbalife næringadrykk og brennslu te alla daga og æfir þrisvar í viku, en það hefur hann gert síðustu 18 árin til að halda sér í formi. „Líf mitt dags daglega snýst eingöngu um mat,“ segir hann og er farinn að plana jólamatinn. „Ég er bara sýrður af mat,“ segir hann. „Ég spila ekki golf, ég á engin hobbý, ég á bara matarhobbý. Ég er búinn að fara þvers og kruss um Asíu, alla Ameríku og er búinn að borða á öllum númer eitt veitingastöðum í heiminum.“

Kaupi stundum alla eftirréttina

Ég spyr hann um uppáhaldsmat. Hann dregur andann djúpt. „Hvað er topp fimm?“ spyr ég þá því ég skynja að spurningin er of erfið fyrir svona matgæðing. „Topp fimm, hmmm. Trufflupasta er eitthvað sem ég verð að fá. Alvöru frönsk fersk gæsalifur, ekki einhverjar eftirlíkingar frá Austur-Evrópu. Ég get alltaf borðað spikfeita nautasteik með frönskum kartöflum. Svo er alvöru paella algjört æði. Ég fæ aldrei nóg af desert. Ég kaupi mér aldrei bara einn desert. Ég kaupi yfirleitt tvo og stundum kaupi ég allt sem til er. Ef konan er ekki með mér kaupi ég alla desertana,“ segir hann og ég hlæ, en honum er fúlasta alvara. „Ég er sykurfíkill, þetta er sama og alkóhólisminn,“ segir Óskar sem hefur verið edrú síðustu 24 árin. „Ég drekk ekki vín, þannig að hvað skiptir máli hvað ég kaupi marga desserta?!“ segir hann. Við ræðum um eftirrétti í korter og hversu erfitt er að velja á milli. „Og á topp fimm lista er sítróunumarengskaka. Með svona þykkum marengs,“ segir hann og sýnir mér þykktina með tveimur fingrum. Ég sé kökuna í hillingum.

Fer af stað með matarþætti á mbl.is

En nú er hann hingað kominn að kenna landanum að elda bragðgóðan og einfaldan kvöldmat. Hann vill líka koma því inn hjá fólki að vera hagsýnt og elda jafnvel meira af sumu því hægt sé að gera gómsæta rétti úr afgöngum. Sunnudagsblaðið mun næstu sunnudaga birta þær uppskriftir sem gerðir eru úr þeim hráefnum sem eru afgangs eftir að sjónvarpsrétturinn hefur verið eldaður. Þættirnir, sem verða tólf talsins, bera nafnið Korter í Kvöldmat og fer fyrsti þáttur í loftið næstkomandi fimmtudag, 12. nóvember. Þættirnar eru fimm mínútna langir og uppskriftir munu fylgja með og er það hugsað svo að fólk geti lesið uppskriftina auðveldlega í símanum sínum út í búð, komið svo heim og horft á fimm mínútna þátt og verið fært í flestan sjó. „Þetta snýst um að elda af skynsemi og elda hratt og nýta hráefnið. Hugsa aðeins fram í tímann, sjóða kannski tvöfalt af kartöflum eða hrísgrjónum og geyma. Til að búa til góðan mat þarftu að hafa ákveðna yfirvegun og vita hvað þú ert að gera og það er algjör snilld að plana þetta fram í tímann. Við munum í raun elda einn rétt í þáttunum og gefa þér svo 2-3 auka útfærslur sem við fylgjum eftir í Sunnudagsmogganum. Því flest allt hráefni geymist vel í lokuðum ílátum í ísskáp,“ segir Óskar og bætir við að það sé nauðsynlegt að vera búinn að ákveða fyrirfram hvað maður ætlar að kaupa.

Matur fyrir alla fjölskylduna

Óskar segir að kennslan verði sett fram á einfaldan og þægilegan máta og snúist ekki um grömm eða nákvæmar mælingar. „Við erum ekki að fara að elda Michelin-mat á fimm mínútum. En við erum að sýna hvernig á að nýta hráefnið skynsamlega. Ef þú ert að elda góða sósu, af hverju gerirðu ekki tvöfalt og geymir skammt? Hún geymist í ísskáp í hálfan mánuð, ekkert mál,“ segir hann. Óskar segir að það verði notað smjör og rjómi í þessum réttum. „Eintómar gulrætur eru ekki góðar. Þetta er með hollu yfirbragði. Mikið grænmeti, en við þurfum að borða. Þetta eru ekki þættir sem megra þig. Þetta er bragðgóður fjölskyldumatur. Það eru allir réttirnir fyrir alla,“ segir hann og bætir við að með þessu móti sparast líka oft tími og peningar. „Þetta á að vera hagkvæmt, skynsamlegt og snöggt, við erum að reyna að uppfylla þessar þarfir sem allir eru að vandræðast með. Þetta er heimilismatur með bragði,“ segir Óskar. „Svo ætlum við að reyna að nýta það sem er til heima hjá fólki en elda góðan mat. Ég ætla að reyna að kveikja smá ástríðu hjá fólki.“

Sonur Óskars, Guðfinnur Þórir, velur fiskmetið sem á að fara …
Sonur Óskars, Guðfinnur Þórir, velur fiskmetið sem á að fara í paelluna hjá þeim feðgum.
Óskar og Agnar Sverrisson, yfirkokkur á Texture í London voru …
Óskar og Agnar Sverrisson, yfirkokkur á Texture í London voru að vonum kátir þegar staðurinn fékk Michelin stjörnu.
Finnur, yngsti sonur Maríu og Óskars, við útskrift úr skóla.
Finnur, yngsti sonur Maríu og Óskars, við útskrift úr skóla.
Barcelona-markaðurinn er frægur fyrir mikið úrval. Hér má sjá úrvalið …
Barcelona-markaðurinn er frægur fyrir mikið úrval. Hér má sjá úrvalið af ferskum tómötum.
Óskar elskar góða nautasteik og úrvalið er gott í Barcelona.
Óskar elskar góða nautasteik og úrvalið er gott í Barcelona.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert