Heimagerðar tortillakökur

Heimagerðar tortilla-kökur.
Heimagerðar tortilla-kökur. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

„Já, ég veit við erum alltaf á hraðferð, hvort sem það er vinnan, námið, börnin, leikfimin eða eitthvað annað. Við eigum eftir að fara í búðina og vitum ekkert hvað við ætlum að hafa í matinn. Ég þekki þetta af eigin raun og trúið mér, þá er það ekki efst á óskalista að flækja hlutina og gera heimatilbúnar tortillur.

En hinsvegar er einstaka sinnum ótrúlega notalegt að gera matinn frá grunni, fá heimilismeðlimi til að taka þátt í eldamennskunni og bara njóta stundarinnar.

Það er líka mun einfaldara en margur heldur að gera heimabakaðar tortillur og þessar eru svo dásamlegar að þær munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Með þessum tortillum bar ég marineraðan kjúkling með heimsins bestu marineringu á kjúkling eða annað kjöt og vá hvað ég hlakka til að gefa ykkur uppskriftina að þeirri dásemd ásamt fersku guacamole, salati, paprikum, rauðlauk og fleira gúmmelaði,“ segir Berglind Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og matarbloggari, á Gulur, rauður, grænn og salt.

375 g hveiti (eða t.d. hveiti og spelt til helminga)
1 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
80 ml grænmetisolía
240 ml heitt vatn

  1. Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman í skál. Bætið olíu og vatni saman við og hrærið í hrærivél í um 1 mínútu en stoppið nokkrum sinnum og skrapið deigið niður úr hliðunum. Þegar þetta hefur blandast vel saman, stillið á lægstu stillingu og hrærið í aðra mínútu.
  2. Færið á hveitistráð borð og skiptið deiginu í tvennt og síðan aftur í tvennt. Haltu þessu áfram þar til þú hefur skipt deiginu í 16 jafnstóra hluta og mótið síðan í kúlur.  Ef deigið er klístrað bætið smá hveiti saman við. Setjið viskustykki yfir kúlurnar og leyfið að standa í um 15 mínútur.
  3. Eftir þetta skuluð þið fletja deigið út og hita því næst pönnukökupönnu eða litla pönnu. Þegar hún er orðin mjög heit setjið pönnukökuna á pönnuna og steikið í um 1 mínútu eða þar til hún er farin að fá brúna hringi, færið á hina hliðina og hitið í 30 sekúndur. Gott er að geyma tortillurnar í poka með rennilás eða lokuðu íláti. Það heldur þeim mjúkum meðan hinar pönnukökurnar eru bakaðar.
  4. Tortillurnar haldast ferskar í lokuðu íláti í sólarhring og geymast einnig í frysti í langan tíma.
Svona lítur deigið út þegar það er búið að skipta …
Svona lítur deigið út þegar það er búið að skipta því upp í litlar kúlur og áður en það er flatt út. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
Svona líta kökurnar út áður en þær fara á pönnuna.
Svona líta kökurnar út áður en þær fara á pönnuna. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert