Kálfasneiðar Cordon Bleue

Cordon Bleue er sígildur réttur sem stundum verður voðalega mikið í tísku (rétt eins og aðrir klassíkerar á borð við Béarnaise-sósu og hana í víni) en heldur sig þess á milli til hlés þótt hann eigi ávallt dyggan hóp aðdáenda. Þótt nafnið vísi til frönsku kokkaakademíunnar og bláa borðans er rétturinn líklega svissneskur að uppruna. Í Bandaríkjunum varð síðan á sjöunda áratug síðasta aldar til afbrigði af þessum rétti þar sem notaður er kjúklingur og hefur verið óhemju vinsæll þar vestra.

Konseptið fyrir Cordon Bleue er í sjálfu sér afskaplega einfalt. Kjötsneiðar settar í eins konar “samloku” með skinku og osti, settar í rasp og steiktar. Voilá, Cordon Bleue.

En það þarf auðvitað að huga að ýmsu til að þetta heppnist vel. Í fyrsta lagi er alvöru Cordon Bleue gert úr kálfasnitsel. Mikilvægt er að hafa góða skinku, hvort sem er cotto eða prosciotto. Farið í gott kjötborð og látið skera niður fyrir ykkur svolítið þykkar sneiðar. Það þarf líka að vanda valið á ostinum. Auðvitað ætti hann helst að vera svissneskur og þetta á að vera ostur sem að bráðnar vel. Allra best er að nota Gruyere, sem fá má í betri ostaborðum.

Berjið kálfasneiðarnar til. Leggið ostinn og skinkuna ofan á. Þá er næst hægt annað hvort að leggja aðra sneið ofan á (sem að við mælum með) eða að rúlla sneiðinni upp í rúllu.

Pískið egg. Takið til rasp. Blandið þurrkuðu óreganó og slatta af rifnum parmesan saman við raspið. Veltið kjötinu fyrst upp úr egginu og síðan raspinu.

Steikið á pönnu við miðlungshita í blöndu af olíu og smjöri þar til að raspið er orðið fallega gullið. Setjið í fat og inn í 150 gráða heitan ofn á meðan að þið klárið sósu að eigin vali og meðlætið með.

Fleiri uppskriftir að sígildum uppskriftum finnið þið hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert