Súpereinfalt sjávarréttapasta

Óskar Finnsson elskar pastarétti og hér sýnir hann okkur hvaða pasta hann eldar alltaf fyrir vini sína þegar þeir koma í heimsókn. Sjávarréttapastað er ævintýralega fljótlegt og einfalt.

Settu vatn yfir suðu með örlitlu salti og olíu, og hitaðu ofninn í 200°.

Þegar vatnið byrjar að sjóða er pastað sett í pottinn, það er ágætt að miða við um 100 g á mann. Pastað er soðið einni mínútu skemur en segir til um á pakkningunni, því við viljum hafa það „al dente“, að það sé enn örlítið stíft.

Fiskurinn er settur í eldfast mót ásamt smá ólífuolíu, sítrónusafa, salti og pipar. Hér notar Óskar rauðsprettu og rækjur og bakar í um 8 mínútur. Fiskurinn verður tilbúinn á um það bil sama tíma og pastað. Það er lítið mál að skipta út rauðsprettunni fyrir aðrar fiskitegundir, en athugið að ef bitarnir eru stórir gæti þurft að lengja bökunartímann.

Með pasta er nauðsynlegt að hafa góða sósu, þessi uppskrift er engin undantekning. Í annan pott setjum við Gríms humarsúpu yfir til suðu. Humarsúpan gefur góðan kraft og grunn í sósuna sem væri mjög tímafrekt að ná fram sjálfur.

Við látum suðuna koma upp á humarsúpunni og bætum í hana einum grófskornum chili (það er um að gera að hafa bitana stóra því þeir eru veiddir upp aftur) og einu hvítlauksrifi sem er marið til að ná úr því sem mestu bragði. Við þetta er bætt um 1 dl rjóma, sem setur punktinn yfir i-ið í sósunni, og látum hana svo malla í 5-6 mínútur.

Þá ætti allt að vera tilbúið og það eina sem er eftir er að setja réttinn saman.

Pastað er sigtað og sett í skál. Chili og hvítlaukur eru veidd upp úr sósunni og megnið af henni er hrært saman við pastað (við geymum um 20% til að setja yfir í lokin svo þetta líti jafn vel út og það bragðast). Fiskurinn er tekinn í sundur í um 4 cm stóra bita og lagður ofan á pastað. Því næst er afganginum af sósunni hellt yfir fiskinn, og ekki verra að skreyta réttinn með smá steinselju.

 Sjáðu uppskriftirnar ú Sunnudagsblaði Morgunblaðsins HÉR

Smelltu HÉR til að sjá fleiri þætti af Korter í kvöldmat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert