Lamb með ekta hvítlaukssósu

Lambalæri er líklega uppáhaldssunnudagssteik flestra Íslendinga. Hægt er að fara ýmsar leiðir í matreiðslunni. Í þessum þætti kennir Óskar Finnsson lesendum að elda á spænska vísu.

Við byrjum á því að hita ofninn í 180° og búum því næst til kryddblönduna. Ein matskeið af pipar, ein af rósmaríni, önnur af salti ásamt einni og hálfri matskeið af paprikudufti er blandað vel saman. Það ekki verra að nota guðsgafflana til verksins.

Við nuddum lærið vel með kryddblöndunni og setjum 2-3 matskeiðar af hunangi yfir ásamt safa úr hálfri sítrónu.

Lærið fer inn í heitan ofninn og á meðan það mallar í um 50 mínútur, nýtum við tímann til að undirbúa sætar kartöflur og himneska hvítlaukssósu að hætti Óskars.

Sósan er mjög einföld og þægileg. Steinseljan er söxuð og sett í skál, hvítlaukurinn rifinn út í, hinum innihaldsefnunum bætt við, öllu hrært saman og sósan er tilbúin. Þetta þarf ekki að vera flókið!

Sósuna notum við ekki alla með lærinu, en hún geymist vel í lokuðu íláti í ísskáp og er sælgæti með kjúkling, nauti, lambi, fisk eða einfaldlega sem ídýfu með góðu baguette brauði.

Sætu kartöflurnar eru skornar í 1x1 cm teninga, beikonið er gróflega saxað og svo er þessu blandað saman í skál ásamt ólífuolíu, timiani, og að sjálfsögðu salti og pipar.

Þegar lærið á eftir um 20-25 mín í ofninum tökum við það út, bætum sætu kartöflunum í ofnskúffuna með lærinu og setjum aftur inn þar til lærið er tilbúið. 

Gert er ráð fyrir að heildareldunartíminn á meðalstóru læri sé 70-75 mínútur en þetta gæti þurft að aðlaga aðeins eftir stærð lærisins. Ef lærið þarf að vera lengur inni þola sætu kartöflurnar auðveldlega lengri eldunartíma.

Þegar lærið er eldað er það tekið út og látið standa í um 10 mínútur. Svo er það borið fram með sætu kartöflunum og gómsætu hvítlaukssósunni.

Athugið að uppskriftin gildir fyrir fjóra. Meðalstórt lambalæri er tæplega 2 kg. 

Fylgist einnig með í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem Óskar sýnir okkur hvernig við getum nýtt afgangana af lærinu. Sjá nánar HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert