13 leiðir til að verða betri kokkur

Nokkur einföld ráð geta orðið til þess að þú sláir …
Nokkur einföld ráð geta orðið til þess að þú sláir í gegn í eldhúsinu. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Við getum ekki öll verið gyðjur og goð í eldhúsinu frá fyrsta degi. Það tekur tíma að læra réttu tökin við eldamennskuna, en þessi 13 ráð sem birtust á Pioneer Woman munu pottþétt flýta aðeins fyrir.

Kryddjurtir
Salt og pipar er auðvitað fínt til síns brúks, en ferskar kryddjurtir og ýmis þurrkuð krydd lyfta hversdagslegum réttum í nýjar hæðir. Þar að auki eru kryddjurtir frábær leið til að bæta bragð án þess að fjölga hitaeiningum.

Undirbúningur
Best er að vera búinn að undirbúa matreiðsluna áður en hafist er handa. Prufaðu að taka til öll innihaldsefni, skræla kartöflurnar, skera laukinn og bita niður kjúklinginn áður en þú byrjar að elda. Ef þú skellir smjöri á pönnu og ferð svo að bisa við laukinn áttu á hættu að brenna smjörið. 

Tímasetning er allt og það er vænlegast til árangurs að allt sé tilbúið og á sínum stað áður en þú kveikir á eldavélinni.

Hugsaðu um hnífana þína
Beittur hnífur er besta tól sem þú getur átt í eldhúsinu. Eldamennskan verður fljótlegri, auk þess sem beittur hnífur er öruggari heldur en hnífur sem farinn er að missa bitið. Þegar þú skerð með bitlausum hníf þarft þú að beita meira afli sem gerir það að verkum að líklegra er að þú slasir þig.

Sýra
Ef þú bætir við sýru, til dæmis í formi sítrusávaxta, eða ediki getur þú gefið frekar óspennandi rétti nýtt líf. Best er að bæta sýrunni við í lokin.

Lestu uppskriftina
Ef þú ert ný/r í eldhúsinu er þetta sérlega mikilvægt. Í rauninni er gott að venja sig á að lesa uppskriftir í gegn, þrátt fyrir að þú teljir þig frábæran kokk.

Það er ekkert eins pirrandi og þegar maður er á hraðferð, en uppgötvar svo að það þarf að marínera kjúklinginn í nokkra klukkutíma áður en hann er eldaður.

Notaðu kjöthitamæli
Hættu að skera í kjötið til að sjá hvort það sé til. Þetta verður bara til þess að safinn lekur út og kjötið þornar. 

Salt
Hugleiddu að skipta venjulega borðsaltinu þínu út fyrir gróft sjávarsalt. Það er bragðbetra, auk þess sem stærðin á kornunum gerir það að verkum að erfiðara er að ofsalta.

Smakkaðu til
Bragðið breytist eftir því hvernig og hversu lengi þú eldar réttinn. Til að mynda getur selta aukist eftir því sem vökvi gufar upp og sýra getur dofnað eftir langan eldunartíma.

Gleymdu ísköldu kjöti
Ekki skella ísköldu kjöti á pönnuna því það getur orðið seigt. Leyfðu kjötinu að jafna sig við stofuhita í að minnsta kosti 10-15 mínútur áður en þú eldar það. 

Þurrkaðu steikina
Gott er að þurrka kjöt með pappírsþurrku áður en því er skellt á pönnuna. Ef kjötið er blautt þegar það fer á pönnuna gufusýður það í stað þess að steikjast. Þú vilt fá stökka húð og halda safanum í kjötinu.

Hvíldu kjötið
Það getur verið erfitt að bíða eftir því að fá sér, en það borgar sig að leyfa kjötinu að hvíla sig áður en skorið er í það. Ef það er ekki gert rennur safinn úr því og kjötið verður þurrara heldur en ella.

Ristaðu hnetur
Bragðið er ekki allt. Áferðin skiptir einnig miklu máli. Hnetur eru frábær leið til að gefa mat skemmtilega áferð og gott bragð.

Ef þú ristar hnetur verða þær stökkari auk þess sem bragðið styrkist, svo ekki sé talað um ilminn sem fylgir.

Rífðu ost
Það er freistandi að notast við rifinn ost úr poka, en hann bráðnar ekki eins og ostur sem þú rífur sjálf/ur niður. 

Rifinn ostur úr poka er jafnan húðaður með sterkju sem kemur í veg fyrir að hann klessist og myndi klumpa. Sterkjan kemur í veg fyrir að osturinn bráðni almennilega og hefur áhrif á bragðgæði.

Leyfðu steikinni að jafna sig og þerraðu hana áður en …
Leyfðu steikinni að jafna sig og þerraðu hana áður en þú skellir henni á pönnuna. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar
Hnetur eru frábær leið til að gefa rétti skemmtilega áferð.
Hnetur eru frábær leið til að gefa rétti skemmtilega áferð. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert