Jólakvennaboð í tvo áratugi: Ómissandi vinkvennaboð á aðventunni

Ásdís Ásgeirsdóttir, Margrét Ásgeirsdóttir, Helga Sverrisdóttir og
Ásdís Ásgeirsdóttir, Margrét Ásgeirsdóttir, Helga Sverrisdóttir og mbl.is/Árni Sæberg

Sem sjálfskipaður matgæðingur Morgunblaðsins er mér ljúft og skylt að deila með lesendum mínu árlega jólakvennaboði með tilheyrandi uppskriftum. Aðventan verður fullkomin í skemmtilegum vinkvennahópi.

Það var árið 1995 sem ég bauð fyrst nokkrum vinkonum í jólaboð í litlu kjallaraíbúðina sem ég leigði í Grjótaþorpinu. Þá vorum við aðeins yngri en nú, áttum enn eftir nokkur ár í þrítugt og boðið mjög lífleg. Á þessum árum var iðulega endað á rölti um bari bæjarins langt fram eftir nóttu. Nú, tuttugu árum síðar, er boðið ekki síður skemmtilegt þótt með breyttu sniði sé og lítið um barrölt lengur.

Borðstofusett nágrannans fengið að láni

Í upphafi voru aðeins sex til átta dömur í boðinu en eftir því sem árin líða fjölgar sífellt í vinkvennahópnum og þá einnig í jólaboðinu fræga. Síðasta sunnudag var slegið met í fjölda, en tuttugu og fimm konur mættu svangar og prúðbúnar klukkan eitt í húsið mitt í Garðabæ. Undirbúningur hafði staðið yfir allan laugardaginn þar sem ég skemmti mér í eldhúsinu við eldamennsku á meðan jólalögin ómuðu í útvarpinu. Á laugardagskvöldinu stóð ég og klóraði mér í höfðinu yfir því hvernig í ósköpunum ég ætti að koma 25 konum fyrir í sitjandi borðhald því þótt borðstofuborðið mitt sé frekar stórt rúmar það í mesta lagi fjórtán. Nú voru góð ráð dýr og sendi ég skilaboð á nágrannann til að spyrja hvort hún ætti stóla að lána mér. Það var auðfengið og ég ákvað að færa mig upp á skaftið og spyrja hvort hún ætti kannski borð líka. Hún hélt nú það. Út var arkað með borðstofusett þeirra hjóna í heilu lagi og málinu bjargað.

Sveik loforð um þrettán nakta jólasveina

Að venju var á boðstólum fjöldinn allur af jólalegum smáréttum; síld, lax, kæfa, skinka, hangikjöt og ýmislegt fleira góðgæti. Maturinn heppnaðist óvenjuvel þetta árið og vel fór um hópinn við þessi tvö borðstofuborð. Ég hafði lofað þrettán nöktum jólasveinum en varð að svíkja það loforð en gat glatt þær með „óvæntri“ heimsókn frá Árna Sæberg ljósmyndara sem mætti með sitt gráa skegg og myndavél í hendi. Honum var ákaft fagnað, enda ekki vanalegt að sjá karlmann í þessum kvennafansi.

Æsilegur pakkaleikur alltaf vinsæll

Við höfum haldið í þá hefð að mæta allar með pakka sem settur er laumulega í stóran svartan plastpoka við komuna. Eftir matinn er borðið rýmt og pökkunum raðað á borðið. Af stað fer æsilegur teningaleikur þar sem sú sem fær tvo eins á teninga, sem ganga hringinn, fær að velja sér pakka. Þar sem mörg pör af teningum eru í umferð gengur leikurinn hratt fyrir sig en hann er látinn ganga í nokkrar mínútur og eru þá sumar komnar með pakkahrúgu fyrir framan sig, ægilega glaðar, en aðrar sitja eftir tómhentar. Allt fer þó vel að lokum því í anda jólannna og jafnaðarstefnunnar fara allar heim með einn pakka, saddar og sælar.

Djöflaegg Dísu

6 harðsoðin egg

4 msk majones eða 50 ml

smá salt

ein tsk dijonsinnep

½ til 1 tsk karrí

smá rjómi til að þynna

Sjóðið eggin, kælið, takið skurnina af og skerið varlega hvítuna í tvennt eftir endilöngu. Takið rauðuna heila úr og hendið í hrærivélarskál, leggið egghelminga á disk. Setjið út í rauðurnar majones, salt, sinnep, karrí og rjóma og hrærið þar til maukað og meðalþykkt. Þynnið með meiri rjóma ef það er of þykkt og kekkjótt. Smakkið til og kryddið meir ef ykkur finnst vanta. Á að vera eins áferð og kökukrem. Setjið í gamaldags rjómasprautu og sprautið í hvern eggjahelming. Þessi réttur passar vel með öllum smáréttum, síld og skinku sérstaklega. Fyrir 6.

Hið sívinsæla brokkólísalat

2-3 hausar brokkólí

beikon, eitt bréf

1 dolla sýrður rjómi eða majones (má blanda 50/50)

smá hvítvínsedik

2 msk agave- eða hlynsíróp

1 rauðlaukur, skorinn smátt

1 poki ristaðar furuhnetur

Skerið brokkólí í litla bita og hendið stilkunum. Blandið saman í sérskál sýrðum rjóma, pínu hvítvínsediki og sírópi. Bakið beikon í ofni þar til stökkt og smá brennt. Kælið og skerið í litla bita.

Setjið í stóra skál brokkólí, lauk og beikon og hellið blöndunni með sýrða rjómanum yfir og blandið vel. Stráið yfir einum poka af ristuðum furuhnetum. Miðað við u.þ.b. 6-8 manns sem meðlæti með öðru. Þessi réttur er einstaklega góður og fer vel með bæði kjöti og fiski.

Volg lifrarkæfa með beikoni og sveppum

2 dósir grófhökkuð lifrarkæfa

1 pakki beikon

1 pakki sveppir

salt og pipar

rósmarín (má sleppa)

smjör

Takið kæfu úr dósunum með skeið og hendið hlaupinu. Leggið í miðjuna á eldföstu móti og mótið í lengju. Bakið beikon í ofni þar til mátulega stökkt. Takið út og kælið og skerið í grófa bita. Skerið og steikið sveppi í smjöri á pönnu og kryddið með salti, pipar og fersku rósmaríni, smátt skornu. Hellið vökvanum af sveppunum og raðið til beggja hliða við kæfuna. Þrýstið beikoni efst í kæfuna. Hitið í heitum ofni í 10-15 mínútur og berið fram volgt. Gott með rúgbrauði og súrum gúrkum. Miðað við 6 manns. Þetta mun slá í gegn.

Síldarsalat með dilli

1 stór dós konfektsíld

1-2 epli

½ búnt dill

4 msk majónes

2 harðsoðin egg

Takið konfektsíld og sigtið allan vökva af, tínið piparkornin burt og þerrið lauslega. Saxið niður dillið. Skrælið eplin og skerið í litla teninga. Skerið eggin í litla bita í eggjaskerara. Blandið öllu saman í skál og hrærið majones saman við. Bætið við majonesi ef þurfa þykir. Geymið í ísskáp yfir nótt helst. Berið fram með rúgbrauði. Miðað við 6 manns.

Laxatartar

150 g ferskur lax

100 g reyktur lax

1-2 cm engiferrót

1-2 msk ólífuolía

smá gróft salt

½ búnt kóríander (má vera steinselja)

Takið roðið af og skerið reykta og ferska laxinn í litla kubba/bita. Hellið olíu í litla skál og rífið engiferið út í. Saltið smá. Blandið í annarri skál saman laxinum og hellið olíu yfir. Stráið kóríander yfir og blandið öllu saman. Betra að láta standa í ísskáp yfir nótt. Gott með snittubrauði og piparrótarsósu eða eitt og sér. Miðað við 6 manns.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert