Sláðu í gegn um áramótin með ostabakka

Hér er jólabrie í sparifötum.
Hér er jólabrie í sparifötum.

„Ostaveitingar eru í raun hið fullkomnasta snarl til að bjóða upp á þar sem er hægt að setja hann saman á skömmum tíma eða undirbúa hann fram í tímann”, segir Eirný Sigurðardóttir eigandi sælkeraverslunarinnar Búrsins.

Eirný setti saman ostabakka með þremur ostum fyrir okkur á Smartlandi Mörtu Maríu. Fyrsti osturinn er feitur og mjúkur Búri sem hún velti upp úr hunangi og söxuðum pistasíum.

„Að mínu mati er Búri einn af skemmtilegri ostum hér heima þar sem hann er svo fjölhæfur. Búrinn er smjörkenndur og grösugur með vott af heslihnetukeim og sækir því í ferskara meðlæti eins og ávexti eða ferska ávaxtatóna í freyðivíni og kampavíni,” segir Eirný.

Jólabrie með stöppuðum parma skinku og hindberjastöppu.
Jólabrie með stöppuðum parma skinku og hindberjastöppu.

Næsti osturinn sem Eirný valdi er jólabrie með trönuberjum og rósmarín.

„Skemmtileg leið til að setja mjúkan mildan jólabrie í spariföt er að setja 150 g af trönuberjum á pönnu ásamt 100 g af sykri og einni heilli grein af rósmarín. Leyfið þessu að malla saman í 5 til 8 mínútur þar til sykurinn er bráðnaður og berin byrjuð að springa og gefa frá sér safa. Hellið volgri blöndunni síðan ofan á ostinn.

Að lokum mælir Eirný með sérlöguðum Tindi frá Sauðárkróki sem er orðinn tveggja ára gamall. „Hann er alveg einstaklega góður, bragðmikill, þurr í áferð og sætur í eftirbragði.” 

„Meðlætið er svo  blanda af öllu mínu uppáhalds gúmmulaði eins og pylsum, hnetum, ætisþistlum, perum, kolakexi, laufabrauði og pikkluðum apríkósum sem við framleiðum í ljúfmetiseldhúsi okkar en þær parast svakalega vel með mjúkum munnþekjandi ostum,” segir Eirný.

Girnilegur ostabakki.
Girnilegur ostabakki.

En hvaða ostar ætli passi best með blessaða kampavíninu sem margir skála í á miðnætti? „Þar sem kampavín hefur meiri fyllingu og bragð en önnur vín og býr yfir meiri gertónum þarf að vanda valið. Rjómabættir hvítmygluostar geta passað vel ef vínið er ávaxtaríkt en forðist þó mjög bragðmikla eða vel þroskaða hvítmygluosta, til dæmis Brie eða Camembert. Að mínu mati er best að para kampavín við osta eins og Parmigiano, Gruyere og Manchego, en þeir hafa ljúfa ávaxtatóna og búa yfir bragði sem minna á brennt smjör, ristaðar heslihnetur og ristað brauð.

Eirný mælir með þessari samsetningu fyrir ykkur sem viljið bjóða upp á dýrindis mola með fordrykknum um áramótin. 

Tindurinn er til dæmis bragðmikill og flókinn og lyftist upp …
Tindurinn er til dæmis bragðmikill og flókinn og lyftist upp við vott af sætu frá þurrkaðri peru og kumin frá laufabrauðinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert