Grillaðar grísakótelettur frá lækninum

Grilluð gríaskótiletta með öllu tilheyrandi.
Grilluð gríaskótiletta með öllu tilheyrandi. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

„Grísakótelettur eru frábærar á grillið – sérstaklega þegar maður er að flýta sér. Og það er mikilvægt að hafa væna fiturönd á svíninu – það er bæði gott á bragðið og svo verndar það líka sjálft kjötið frá því að þorna á meðan það er eldað,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, Læknirinn í eldhúsinu, í sinni nýjustu færslu á blogginu: 

Hér er byrjað að elda kótelettuna á miklum hita í mínútu á hvorri hlið og svo eru þær settar til hliðar og grillaðar áfram á óbeinum hita þangað til að þær eru tilbúnar. Mér finnst erfitt að meta hvenær svínakjöt er tilbúið og þar af leiðandi finnst mér best að nota kjöthitamæli. Og ég leyfi kjötinu ekki að fara hærra en 70 gráður. Munið að kjötið heldur áfram að eldast í nokkrar mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Í nafngift þessarar uppskriftar aðskil ég kótelettuna frá purunni þar sem hún er tekin af kjötinu og elduð sér, þar sem það tekur lengri tíma að fá hana fullkomna en tekur að elda kótelettuna. 

 

Fyrir sex

6 sneiðar grísakótelettur með purunni

150 gr stilton ostur (eða annar ljúffengur blámygluostur)

2‒3 msk jómfrúarolía

1 grein rósmarín

salt og pipar

Eplasósan

4 epli

75 ml vatn

2-3 msk hlynsíróp

1 kanilstöng

 

 

 

Skerið puruna af kótelettunni og látið hana þorna í ísskáp í eina klukkustund. Nuddið hana svo upp úr olíu, saltið ríkulega og setjið í 200 gráðu heitan ofn þangað til að hún poppast (15‒20 mínútur).

Nuddið grísakóteletturnar upp úr jómfrúarolíu, smátt skornu rósmaríni og salti og pipar.

Blússhitið grillið og grillið sneiðarnar í eina mínútu á hvorri hlið þannig að þær karmelliserist vel. Setjið þær á óbeinan hita.

Skerið ostinn í sneiðar og raðið ofan á hverja kótelettu. Grillið þangað til að kjarnhiti hefur náð 70 gráðum. Hvílið í 5 mínútur.

 

 

Það er eitthvað fallegt við ost sem er að bráðna á heitri steik! 

 

Það er lygilega einfalt að fá puruna vel heppnaða - þessi varð alveg eins og kex! 

Eplasósan er ákaflega einföld. Flysjið eplin og skerið í grófa bita og setjið í pott, ásamt kanilstönginni, og hitið þangað til að eplin fara að taka smá lit. Hellið sírópinu og vatninu og sjóðið vökvann niður. Eldið eplin þangað til að þau eru orðin mjúk í gegn. Stappið þau gróflega niður með sleif og látið kólna í ísskápnum. Vel er hægt að gera eplasósuna áður þar sem hún geymist vandræðalaust í ísskápnum í nokkra daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert