10 skotheld partíráð

Auður Ögn Árnadóttir eigandi 17 sorta.
Auður Ögn Árnadóttir eigandi 17 sorta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar tími ferminga, brúðkaupa og útskriftarveisla stendur sem hæst er vel þegið að fá góð ráð varðandi veisluhöldin. Auður Ögn Árnadóttir eigandi 17 Sorta, sem er sérvöruverslun með kökur segir að fólk þurfi að hafa áherslurnar á réttum stöðum þegar það heldur boð. 

„Mér hefur fundist það „trend“ í sókn að fólk er að hafa alltof miklar áhyggjur að einhverju sérstöku þema og leggur jafnvel meira uppúr því hvernig veitingarnar og veisluborðið myndast heldur en bragðgæðunum. Nú er ég alveg manna fyrst til að viðurkenna það að útlit og framsetning matarins skipti máli en öllu má nú ofgera,“ segir hún. 

Hér eru 10 skotheld partíráð: 

1. Vertu tímanlega. Þetta er tugga sem er aldrei of oft kveðin. Þú ert afslappaðri og skemmtilegri gestgjafi ef þú ert vel undirbúin/n og stressið undir mörkum. Skipulagning þýðir að þú njótir þín betur og getur jafnvel gert hlutina á hagkvæmari hátt með því að vera tímanlega.


2. Ekki vera hrædd/ur um að biðja um hjálp. Vinir og ættingjar hjálpa oftast með glöðu geði. Hvort sem er að leggja á borð, elda einn rétt eða baka köku, skreyta eða eitthvað annað, þá getur svona hjálp verið ómetanleg. Leyfðu fólkinu þínu að taka þátt í deginum með þér.

3. Vertu persónuleg/ur. Reyndu að koma persónuleika þess sem veislan er til heiðurs, á framfæri á einhvern hátt og endurspegla þannig karakterinn.

Auður Ögn hefur unun af því að skreyta veisluborð en …
Auður Ögn hefur unun af því að skreyta veisluborð en þó megi stíliseringin ekki koma niður á bragði veitinganna.

4. Ekki mikla þetta fyrir þér. Ég hitti alltof mikið af fólki sem hreinlega kvíðir stóra deginum (af hvaða meiði sem hann kann að vera) því það heldur að þetta sé stórmál. En svo þarf ekki að vera ef þú ferð eftir ráði 1 og 2 og endilega reyndu að gera lista.... og svo lista uppúr listanum. Og í guðanna bænum farðu ekki á límingunum þó að tannstönglarnir séu ekki í stíl við útihurðina eða bleiki tónninn í borðskreytingunum sé ekki sá sami og í frönskum makrónunum á eftirréttaborðinu – þú verður afslappaðri og skemmtilegri fyrir vikið.

5. Veldu frekar færri rétti og einbeittu þér að því að hafa þá virkilega góða. Ef þú ætlar að vera með hlaðborð – hvort sem það er kaffi eða matur - er betra að stilla úrvalinu í hóf og gæta þess hvað á vel saman.

6. Blandaðu saman aðkeyptum veitingum og þínum eigin. Það er ódýrara og persónulegra, jafnvel þó að þú gerir bara eitthvað eitt. Gættu þess þó að velja eitthvað sem hægt er að gera fyrirfram og þarfnast ekki undirbúnings á síðustu stundu. Best ef það má frysta réttinn.

7. Vertu raunsæ þegar þú áætlar magn veitinga á hvern og einn. Flest lendum við í því að vera með of mikið magn sem endar jafnvel bara í ruslinu. Takið saman hvað það eru mörg börn í hópnum og einnig hvernig kynjaskiptingunni er háttað. Konur borða minna en karlar að öllu jöfnu. Einnig er gott að leita sér upplýsinga um það fyrirfram hvort mikið sé um ofnæmi eða hvort einhver sé með bráðaofnæmi og sneiða þá hjá þeim innihaldsefnum.

Kökurnar hennar Auðar eru mjög góðar á bragðið.
Kökurnar hennar Auðar eru mjög góðar á bragðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

8. Ef börn eru í veislunni er gott að gera ráð fyrir þeim sérstaklega, bæði í mat og afþreyingu. Taktu tillit til þeirra í vali á mat og ef þau eru mörg, kemur til greina að hafa sérstakt barnahlaðborð. Ef þú færð sérstakar barnapíur á staðinn til að hafa ofan af fyrir þeim, er ég viss um að foreldrarnir verða þér ævinlega þakklát.

9. Hvort sem veislan þín er í leigðum sal útí bæ eða í heimahúsi, vertu viss um að þú sért með nógu mikla hjálp á staðnum til að þú getir sinnt gestunum þínum og gefið þér tíma í spjall með hverjum og einum. Þú/þið eruð ástæða þess að þau mættu.

10. Njóttu þín – þá gera gestirnir það líka.

Bollakökur eru fallegar á veisluborð en líka góðar á bragðið.
Bollakökur eru fallegar á veisluborð en líka góðar á bragðið.
Litrík rör búa til stemningu.
Litrík rör búa til stemningu.
Hér dekkaði Auður Ögn veisluborð fyrir skírnarveislu.
Hér dekkaði Auður Ögn veisluborð fyrir skírnarveislu.
Fallega lagt á borð.
Fallega lagt á borð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert