„Við erum á móti þessari ofurálagningu“

Staðurinn opnaði 21. júní síðastliðinn.
Staðurinn opnaði 21. júní síðastliðinn. Ljósmynd/Messinn

Veitingastaðurinn Messinn opnaði á dögunum á Lækjargötu 6b. Staðurinn sérhæfir sig í fiskréttum sem eldaðir eru á pönnum og bornir fram í þeim. Fyrirmynd Messans er Tjöruhúsið á Ísafirði en Jón Mýrdal eigandi staðarins er frændi Magnúsar Haukssonar, eiganda og yfirkokks á Tjöruhúsinu.

„Jón hafði lengi langað að opna veitingahús eins og Tjöruhúsið í Reykjavík. Hann hefur sjálfur verið að vinna í Tjöruhúsinu og var að bíða eftir rétta tækifærinu til opna í Reykjavík,“ segir Snorri Sigfinnsson, yfirkokkur á Messanum.

Ljósmynd/Messinn

Hann segir Magnús í Tjöruhúsinu hafa tekið vel í hugmyndina svo ákveðið var að fara af stað með verkefnið í nóvember. „Þetta er byggt á sömu hugmynd og Tjöruhúsið og sumir réttirnir á matseðlinum eru nákvæmlega eins og þar, til dæmis kolinn.“

Stórir og góðir skammtar 

Staðurinn tekur 55 manns í sæti og keppst er við að hafa verðlagningu sem sanngjarnasta. „Við erum á móti þessari ofurálagningu, þessu túristaverði,“ segir Snorri. Í hádeginu er síðan boðið upp á minni útgáfu af kvöldseðlinum.

Staðurinn er á Lækjargötu 6b.
Staðurinn er á Lækjargötu 6b. Ljósmynd/Messinn

Snorri segir viðtökurnar hafa verið vonum framar og staðurinn nánast fullur á hverju kvöldi og í hádeginu. „Það er komið út í það að fólk þarf að panta borð ef það vill vera alveg öruggt um að fá það,“ segir Snorri.

Að lokum segir Snorri að líklegast sé best að lýsa staðnum sem gamaldags lummó stað en þó á jákvæðan hátt. „Þú pantar þér mat og færð stóran og góðan skammt.“

Fiskborgarinn á Messanum.
Fiskborgarinn á Messanum. Ljósmynd/Messinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert