„Vegan“ súkkulaði- og kókosís

Dásamlega góður vegan súkkulaði og kókosís
Dásamlega góður vegan súkkulaði og kókosís Ljósmynd/Mæðgurnar

Sól­veig Ei­ríks­dótt­ir og dótt­ir henn­ar, Hild­ur Ársæls­dótt­ir, halda úti upp­skrift­asíðunni Mæðgurn­ar, þar sem þær deila holl­um og góðum upp­skrift­um með les­end­um. Upp­skrift­in að þess­um dásamlega súkkulaði- og kókosís er frá mæðgunum.

Mæðgurnar eiga ísvél sem hægt er að fá á góðu verði í búsáhaldabúðum. Í vélinni hræra þær reglulega ísblönduna á meðan hún er að frjósa og þannig er komið í veg fyrir að ísnálar myndist í ísnum. Einnig er hægt að frysta ísinn beint í form en þá hjálpar til að taka formið út nokkrum sinnum og hræra aðeins í blöndunni við og við á meðan ísinn er að frjósa. Áferðin verður öðruvísi en bragðið helst hið sama.

Þessi ís er „vegan“ og geta því allir notið hans.

Ísinn er bæði fallegur og bragðgóður.
Ísinn er bæði fallegur og bragðgóður. Ljósmynd/Mæðgurnar

Uppskrift

1 dós kókosmjólk (coconut cream)
2 frosnir bananar
2 msk hreint kakóduft
50 g hlynsíróp eða önnur sæta
1 tsk vanilluduft
smá cayennepipar
50 g dökkt súkkulaði (70%, helst fairtrade), gróft rifið

Aðferð

  1. Setjið allt nema súkkulaðið í blandara og blandið vel.
  2. Hellið í skál, bætið rifnu súkkulaði út í.
  3. Kælið (í ísskáp).
  4. Setjið í ísvél (ef þið eigið) og fylgið leiðbeiningunum með vélinni. Setjið annars í form og frystið, gott að hræra við og við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert