Ljúffeng þunnbotna vegan-pítsa

Pítsan er skreytt með fallegu grænmeti.
Pítsan er skreytt með fallegu grænmeti. Ljósmynd/Mæðgurnar

Sólveig Eiríksdóttir og dóttir hennar Hildur Ársælsdóttir halda úti uppskriftarsíðunni Mæðgurnar. Þar deila þær hollum og góðum uppskriftum með lesendum sínum. Mæðgurnar eru hrifnar af pítsum og deildu á dögunum uppskrift að þessari ljúffengu vegan-pítsu. 

Grænmetið er fallegt á litinn.
Grænmetið er fallegt á litinn. Ljósmynd/Mæðgurnar

Uppskrift

2 pítsubotnar

250 g spelt (fínt og gróft til helminga)
2 tsk. vínsteinslyftiduft
½ tsk. sjávarsalt
2 msk. jómfrúarólífuolía
140 ml volgt vatn

Aðferð

  1. Setjið þurrefnin í skál, bætið olíunni og vatninu út í og hrærið deigið saman með gaffli.
  2. Hnoðið deigið örstutt og fletjið út tvo þunna botna. (Ef deigið er blautt, stráið smá spelti áður en þið fletjið út.)
  3. Forbakið botnana við um 190°C í 2–3 mín.
  4. Setjið áleggið á sem fyrst eftir að botnarnir koma úr ofninum.
Grænmetið gefur pítsunni lit.
Grænmetið gefur pítsunni lit. Ljósmynd/Mæðgurnar

Álegg fyrir 1 pizzu

2–3 msk. vegan majones, kryddað EÐA heimalagað spicy mayo úr kasjúhnetum (sjá uppskrift hér)
1–2 dl rifinn vegan-ostur
1–2 msk. vegan parmesan (ef vill)
150 g grænmeti í þunnum sneiðum (við notuðum hvítlauk, brokkolí, fjólubláa gulrót og röndótta rauðrófu)
Jómfrúarólífuolía til að pensla grænmetið með
Sjávarsaltflögur og chiliflögur

Svo er bara að njóta!
Svo er bara að njóta! Ljósmynd/Mæðgurnar

Aðferð

  1. Smyrjið majónesinu á forbakaðan botninn, stráið ostinum yfir, raðið grænmetinu ofan á og penslið með smá ólífuolíu.
  2. Stráið smávegis af sjávarsaltflögum og chiliflögum yfir.
  3. Bakið pítsuna við 190°C í um 7–10 mín. eða þar til osturinn hefur bráðnað og er orðinn örlítið gullinn.
  4. Pítsan er langbest nýkomin úr ofninum.
  5. Mjög gott er að bera fram smávegis auka mayo, grænmeti og granateplakjarna með pítsunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert