Ljúffeng bláberjasulta í hollari kantinum

Ljúffeng sulta er til að mynda góð á brauð og …
Ljúffeng sulta er til að mynda góð á brauð og annað bakkelsi. Ljósmynd / skjáskot Mæðgurnar

„Síðsumars og á haustin reynum við mæðgur að komast að minnsta kosti tvisvar í berjamó. Við förum í eina rólegheitaferð með litlu krílin og njótum útivistar og samverunnar með þeim. Svo förum við sjálfar í aðra ferð til að safna vel í sarpinn fyrir veturinn,“ segja mæðgurnar Solla Eiríks og Hildur Ársælsdóttir í sinni nýjustu færslu, þar sem þær deila girnilegri uppskrift að sultu í hollari kantinum.

Solla og Hildur halda úti vefsíðunni Mæðgurnar, þar sem þær deila ýmsum girnilegum uppskriftum með lesendum.

„Bláber og krækiber eru margrómuð fyrir hollustu, auðug af vítamínum, steinefnum, trefjaefnum og öðrum hollustuefnum. Við sem búum hér á landi erum svo ótrúlega heppin að hafa aðgang að þessum villtu gersemum, alveg ókeypis.“

„Okkur finnst bragðið af berjunum njóta sín betur ef sultan er ekki dísæt. Við notum krydd eins og kanil, vanillu og engifer til að gefa sultunni gott bragð og minnka sykurþörfina. Og oft veljum við döðlur eða aðra þurrkaða ávexti í staðinn fyrir unninn sykur. Hér áður fyrr var sykur mjög gagnlegur til að auka geymsluþolið, en nú til dags hafa flestir aðgang að frystikistu eða frystihólfi og því er raunhæfur valkostur að minnka sykurmagnið í sultum alveg heilan helling.“

Bláberja- og sólberjasulta

1 kg bláber

1 kg sólber

750 g lífrænar döðlur, skornar í bita

2 msk. engiferskot (eða 4 cm biti af ferskum afhýddum engifer)

2 tsk. vanilluduft

1 tsk. kanill

1 tsk. sjávarsaltflögur

1/2 tsk. chili

Aðferð:

Byrjið á að setja bláberin og sólberin í pott og látið suðuna koma upp við vægan hita. Hrærið í annað veifið.

Þegar suðan er komin upp er engiferskoti, vanillu, kanil, sjávarsalti og chili bætt út í og látið sjóða í 30 mínútur.

Á meðan sultan sýður er gott að mauka döðlurnar í matvinnsluvél, oft þarf að bæta svona 1-2 msk. af vatni út í til að þær maukist þokkalega. (Hægt er að saxa döðlurnar í litla bita í staðinn fyrir að mauka).

Bætið döðlumaukinu í pottinn og látið sultuna sjóða í 20-30 mínútur í viðbót, hrærið í svo hún brenni ekki.

Bláber eru herramannsmatur, en þau má nálgast alveg ókeypis um …
Bláber eru herramannsmatur, en þau má nálgast alveg ókeypis um þessar mundir. Ljósmynd / skjáskot Mæðgurnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert