c

Pistlar:

5. maí 2011 kl. 16:14

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Kaloríur til umráða.

Valið er þitt og árangurinn eftir þvíEf þú færð skammtaðar 2000 kr. á dag í vasapening , ekkert kreditkort í boði, þarf hagsýni að vera í fyrirrúmi til að láta dæmið ganga upp.

Það sama á við ef við viljum losna við aukakíló. Við höfum ákveðinn fjölda hitaeininga til ráðstöfunar kjósum við halda okkur í kjörþyngd eða komast þangað.

Líkaminn brennir ákveðnum fjölda hitaeininga á sólarhring. Efnaskiptahraði líkamans er einstaklingsbundinn en til eru viðmiðunartölur fyrir konur og karla sem mark er takandi á.

Meðal kona brennir u.þ.b. 2000-2200 he á sólarhring. Ef hún hefur að markmiði að viðhalda þyngd sinni þá eru ráðstöfunar kaloríur hennar 2000-2200 á dag. Ef hún vill losa sig við umfram líkamsfitu þá er hitaeiningafjöldi hennar til ráðstöfunar 1500-1600 á dag.

Gott ráð er að hugsa um hitaeiningar á sama hátt og ráðstöfunarfé. Hugsaðu þér ef þú hefðir 1500 kr. til ráðstöfunar á dag. Þú þyrftir að að gæta vel að eyðslu þinni. Ef þú klárar peninginn fyrir hádegi er lítið gaman hjá þér það sem eftir lifir dags. Ef þú eyðir um efni fram safnar þú skuldum rétt eins og aukakílóin safnast á þig ef þú ferð yfir æskilegan hitaeiningafjölda.

Ef þú velur að fá þér væna rjómatertusneið í morgunkaffinu í vinnunni, af því að Sigga í bókhaldinu er að hætta, eru líkur á því að þegar þú ert búin að borða salatið í hádeginu er kaloríuskammtur dagsins á þrotum. Þú lifir ekki á vatni það sem eftir lifir dags svo þá geturðu annaðhvort tekið hraustlega 90 mín aukaæfingu eða sætt þig við að þú munir ekki ná markmiðum þínum þann daginn. Ef þú á hinn bóginn ákveður að sleppa rjómatertunni og eyða hitaeiningunum þínum frekar í hollt og gott fæði sem endist þér vel út daginn eru líkur á því að þú komist nær þínu markmiði, þér líði betur og sért ánægðari með þig andlega og líkamlega.

Þú þarft ekki að telja hverja einustu hitaeiningu ofan í þig. En það er afar gagnlegt fyrir þig að hafa góða yfirsýn yfir það sem þú neytir og gera þér nokkurn veginn grein fyrir næringargildi þess og orkuinnihaldi. Þegar þú byrjar að viða að þér upplýsingum um hitaeiningafjölda í fæðunni sem þú neytir færðu fljótt góða heildaryfirsýn því flestir eru frekar vanafastir og borða oft það sama, a.m.k. í hversdagsleikanum.

Prófaðu að setja þér ákveðinn hitaeiningafjölda til daglegrar ráðstöfunar og fylgja því vel eftir ásamt því auðvitað að hreyfa þig reglulega. Sannaðu til, það mun fljótlega skila þér flottum árangri.