c

Pistlar:

3. janúar 2012 kl. 10:19

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Facebook kemur þér í form!

cartoondoktor2.jpgAð byrja í ræktinni er ekki endilega auðveldasta mál í heimi. Það má vera ljóst því mjög margir hætta og byrja og hætta aftur og aftur.  Það er auðvitað best að hætta aldrei en ef þú hættir og hefur ekki haft þig af stað aftur ættir þú að einblína á að koma þér á beinu brautina á ný.

Það sem helst veldur því að margir eiga erfitt með að gera reglulega þjálfun af hluta af sínum lífsstíl er þetta helst: 

1. Of erfitt. 
Fólk fer gjarnan af stað með miklum eldmóð og áhuga og háleit markmið.  "Ég ætla að æfa á hverjum degi" eða "ég ætla að hlaupa 5km á dag".   Slík markmið reynast flestum of erfitt að halda út til lengdar.  Einhverjir geta það í nokkra daga en fljótlega verður það orðin kvöð og uppgjöf skammt undan.

2. Of margt í einu. 
Oft ætlum við okkur um of.  Við ætlum að hlaupa, lyfta, borða hollt og fara í sælgætis- og gosbindindi, allt í einu og það strax.  Það tekur tíma að skapa nýjar venjur og ef við ætlum okkur að breyta svo mörgum þáttum á einu bretti er líklegt að við springum fljótt á limminu.  Skynsamlegra er að setja sér eitt markmið í einu og einbeita sér að því í a.m.k. 30 daga og byrja svo á því næsta.

3. Ekki nægur hvati 

Aginn er oft ekki endilega vandamálið, fremur hvatinn.  Ef mann langar nógu mikið að gera breytingar þá tekst það.  Ef eigin hvati er ekki fyrir hendi þá gerist lítið.  Finndu út hvað hvetur þig áfram. Það er t.d. margsannað að fólk sem gerir átak í sínum málum fyrir opnum tjöldum, t.d. með því að blogga um það er líklegra til að ná sínum markmiðum því aðrir eru að fylgjast með.

Fjögur einföld skref til að byrja.

Hér eru 4 einföld skref til að gera hreyfingu að föstum lífsstíl.   Þú getur í raun notað þessi 4 skref til að koma þér upp hvaða venjum sem er.

1.  Settu þér eitt skýrt mælanlegt markmð.
Hafðu það skriflegt og festu það upp á góðan stað þar sem þú sérð það daglega, helst oft á dag.

a. Hafðu það einfalt og auðvelt. 
Ef þú hefur ekki hreyft þig árum saman gæti verið fyrsta markmiðið þitt að hreyfa þig í 5 mínútur á dag.  Einfaldara og viðráðanlegra verður það varla.   Eftir einn mánuð skaltu tvöfalda tímann og þrefalda hann eftir tvo mánuði og eftir fjóra mánuði ertu farin/n að hreyfa þig í 20 mínútur á dag.

b. Hafðu það nákvæmt
Taktu ákvörðun um nákvæmlega hvað þú ætlar að gera, klukkan hvað og hvar.    Því nákvæmari sem þú ert varðandi öll smáatriði í markmiðasetningu og áætlunargerð því líklegri ertu til að standa við áætlunina þína.

c. Hafðu kveikju
Það er afar gagnlegt að búa sér til kveikju að nýju venjunni.   Þegar þú gerir hlutina alltaf í ákveðinni röð skapast tengingar á milli venja.  T.d. þú burstar alltaf tennur eftir sturtuna á morgnana.  Kveikjan að því að bursta tennur er að fara í sturtu, þá manstu alltaf eftir að bursta tennur.  Hvernig kemurðu upp kveikju að því að þú farir á æfingu?  Er það um leið og þú vaknar á morgnana, eða um leið og þú kemur heim úr vinnu, eða alltaf áður en þú borðar hádegismat?  

d. Hafðu það mælanlegt
Hafðu markmiðið þitt mælanlegt.  Það þarf að vera skýrt hvenær og hvort þú nærð því eða ekki.  Dæmi um mælanleg markmið: Hlaupa í 10 mínútur, ganga 2 km, 3 sett af 5 armbeygjum.

e. Eitt í einu
Haltu þig við þetta eina markmið í a.m.k. 30 daga. 

2. Haltu dagbók
Að halda dagbók er þýðingamikill þáttur.  Þegar þú skráir niður æfingarnar þínar og sérð svart á hvítu að þú ert smám saman að bæta þig, eflist áhuginn og eldmóðurinn til muna og þú færð aukinn kraft til að halda áfram.  Ekki slá því á frest, skráðu í dagbókina strax eftir æfinguna án undantekninga.

3. Deildu
Þetta kann að vera miklvægasti þátturinn í því að þú haldir þig við efnið.  Með því að segja fjölskyldu, vinum og skóla- eða vinnufélögum frá markmiðum þínum og leyfa þeim að fylgjast með hvernig gengur ertu mun líklegri til að ná settu marki.  Það veitir heilmikið aðhald þegar þú veist að fólkið þitt er að fygjast með þér og hvetja þig og styðja.  Facebook síðan þín getur því verið lykil tækið þitt í baráttunni.

4. Bættu við hvatningu eftir þörfum.
Eftir fyrstu þrjú skrefin ættirðu að vera búin/n að mynda nýjan vana.  Ef ekki, gefstu ekki upp.   Ef þú stendur þig að því að hafa sleppt úr tveimur æfingum þarftu að líta í eigin barm og velta fyrir þér ástæðunni og finna nýja hvata.  T.d. ákveða verðlaun ef þú stendur þig eða finna enn frekari áskoranir.  Haltu áfram þar til venjan er orðin fastur liður í þínu lífi og þú ferð á æfingu án þess að spá í það frekar.

www.hreyfing.is