c

Pistlar:

16. febrúar 2012 kl. 18:04

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Frábært líf eftir fimmtugt

40-50-man_ashx.jpgAlla daga lífsins erum við að eldast.  Það er gangur lífsins og vissulega betra að eldast en ekki og hver aldur hefur sinn sjarma.   Heilsufar fólks er mis gott og sumir sem komnir eru yfir miðjan aldur glíma við heilsubrest af einhverju tagi s.s. of háan blóðþrýsting, of hátt kólesteról, of mikla streitu, offitu, veikleika í taugakerfi eða almennt slen eða orkuleysi. 
Aðrir eru fullir af orku og hreysti eins og þeir væru ekki deginum eldri en 30 ára.   Það kann að vera að þetta fólk hafi fundið "lykilinn að æskubrunninum". 
Við stöðvum víst ekki tímann en við sjálf getum haft margvísleg áhrif á það hvernig líkami okkar eldist.

Slæmu fréttirnar.

Flestir byrja að tapa vöðvamassa eftir þrítugt og kyrrsetufólk missir u.þ.b. 2% af vöðvamassanum árlega eftir að 50 ára aldri er náð.  Vöðvatapið getur haft mikil áhrif á lífsstíl fólks og lífsgæði. Aukin hætta er á ofþyngd og offitu, ofþreytu og auknu álagi á hjartað.
Talið er að karlar eldri en 45 og konur eldri en 55 ára sem hreyfa sig lítið eða ekkert séu í 70% meiri hættu á að láta lífið fyrir aldur fram af völdum hjartaáfalls en þeir sem hreyfa sig reglulega 3x í viku.
Líklegt er að eftir fimmtugt verði veruleg rýrnun beinmassa, sér í lagi hjá konum.  Óþjálfaðir vöðvar,  óþétt bein og aukakíló er ekki góð blanda og getur haft alvarleg heilsufarsleg áhrif.

Þú hefur val!

Góðu fréttirnar eru að fólk eldra en 50 ára sem stundar reglulega styrktarþjálfun er vel fært um að bæta við vöðvamassa, beinþéttni, auka andlega færni og bæta heilsuna almennt. Spyrntu við fótum.  Endurhugsaðu hlutina og settu stefnuna á að hámarka andlega og líkamlega heilsu þína og stjórnaðu því sjálf/ur hvaða breytingar verða á heilsufari þínu og útliti.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk á aldrinum 56-87 ára sem höfðu stundað létta þolþjálfun í 6 ár, minnkaði líkurnar á að fá hjartaáfall um 46% í samanburði við kyrrsetufólk.  Hópurinn sem hreyfði sig jók auk þess beinmassann um ríflega 2% og vöðvastyrkur jókst um 23%.

Önnur könnun sýndi fram á að með reglulegri þjálfun verður aukið blóðflæði til heilans og örvun taugakerfisins hafði jákvæð áhrif á heilastarfsemi.  Vísindamenn ályktuðu þ.a.l. að regluleg þjálfun geti mögulega minnkað líkur á Alzheimer sjúkdómnum um allt að 35%.

fitness50_1135497.jpgÞað er aldrei of seint að byrja að æfa.

Ef þú vilt auka líkurnar á því að þú náir háum aldri við góða heilsu ættir þú að einbeita þér að því að koma hreyfingu inn í þinn lífsstíl. Ekki telja þér trú um að þú sért komin/n á þann aldur að krefjandi líkamsæfingar séu of erfiðar fyrir þig.  Ef þú vilt að síðari hluta lífs þíns einkennist af góðum lífsgæðum og frelsi til að njóta lífsins til fulls, þá er tíminn núna til að hefja forvarnir.  Það er aldrei of seint að byrja.

Aukið þol, þrek og vöðvastyrkur bætir ekki aðeins heilsu þína heldur hefur einnig mikl áhrif á aukin lífsgæði.  Þú hefur heyrt það áður; "Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefur þú ekki heilsu fyrir tímann á morgun".  Margir hugsa þó ekki um það fyrr en heilsan bilar. 


Stundaðu æfingar sem henta.

Öll hreyfing er af hinu góða en viljir þú vera í góðu formi eftir 50 ára aldur þarftu áætlun sem felur í sér fjölbreytta þjálfun og samsetningu og styrkleikastig æfinga sem hentar þér og þinni getu auk hollrar og næringarríkrar fæðu og jákvæðra lífsstílsbreytinga.

Æfingaáætlunin þín ætti að fela í sér þolþjálfun, styrktarþjálfun með lóðum og liðleikaþjálfun.  Þolþjálfunin kemur blóðinu af stað, styrkir hjarta- og æðakerfið og brennir líkamsfitu.  Ef þú hefur ekki stundað þolþjálfun í langan tíma getur verið skynsamlegt að byrja á því að ganga rösklega 3-5x í viku og vinna þig upp í að skokka.  Einnig getur þú t.d. hjólað og/eða synt.

Styrktarþjálfunarkerfið  ætti að vera samsett með fjölbreyttum æfingum fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans og þín markmið í huga.  Mælt er með því að lyfta lóðum ca 2x í viku til að viðhalda og/eða auka vöðvamassa.

Að lokum er mikilvægt að stunda liðleikaþjálfun.  Teygjuæfingar eru nauðsynlegar eftir styrktaræfingar.  Jóga, Pilates Fitness, HD Fitness og Hot Fitness eru dæmi um æfingakerfi þar sem rík áhersla er lögð á jafnvægis- og liðleikaþjálfun.

Jákvætt hugarfar er lykilatriði.

Góð næring skiptir sköpum.  Fjölbreytt fæða sem inniheldur prótein, holla fitu, flókin kolvetni og trefjar, ætti að vera uppistaðan í daglegri neyslu þinni.  Hitaeiningamagnið skiptir máli og þurfa að vera í takt við þína þörf.  Gagnlegt getur verið að borða 5-6 máltíðir á dag í stað hinna hefbundnu þriggja.

Það þarf vitanlega ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að vera reyklaus og neyta áfengis í hófi en neysla slíkra efna getur flýtt fyrir öldrunarferli líkamans.

Eitt það mikilvægasta sem þú getur gert fyrir heilsu þína og lífshamingju er jákvætt hugarfar.  Margir þeirra 50 ára og eldri sem hafa náð framúrskarandi árangri varðandi líkamshreysti halda því fram að jákvætt hugarfar sem mikilvægasti þátturinn í heilsuáætlun sem virkar vel.

www.hreyfing.is