c

Pistlar:

10. apríl 2012 kl. 21:59

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Stæltur kroppur í sólinni

happy-people-hd-wallpaper-summer.jpgMeð bjartsýni í hjarta hlökkum við til sumarsins sem hlýtur að vera alveg á næsta leiti.  Hærri hitatölur, sólskin, léttari fatnaður og meiri útivera er hluti af þessari ljúfu árstíð sem margir telja þá bestu.   Sumarið er tíminn sem við spókum okkur á stuttbuxum og hlírabol eða litríkum sundfötum og þá er ekki verra að hafa styrkt og stælt kroppinn aðeins til.

Hér eru nokkur góð ráð til að vera stæltari og flottari í sumar.

1.  Settu markið á framfarir frekar en fullkomnun. 
Við vitum vel að það er enginn fullkominn og glæsikropparnir í glanstímaritunum eru fótosjoppaðir á alla kanta og ekki raunhæfar fyrirmyndir.  Settu þér þín eigin markmið miðuð við þinn líkama og getu og taktu stöðuna vikulega og leggðu áherslu á að bæta þig jafnt og þétt.

2.  Safnaðu í "hreyfingarbaukinn".
Líttu á hreyfingu eins og smámynt sem þú setur í sparibauk.   Öll hreyfing sem þú stundar skiptir máli.  Hlauptu stigana í stað þess að taka lyftu.  Leggðu bílnum aðeins lengra frá í stað þess að reyna að fá stæði við dyrnar eins og venjulega. Dansaðu á meðan þú eldar og burstar tennurnar.  Hlauptu hringinn í kringum húsið þitt kvölds og morgna.  Öll hreyfing telur og færir þig nær þínu marki.

3. Beygjur virka!
Hnébeygjur og armbeygjur eru frábærar æfingar sem slá margar flugur í einu höggi ef svo má segja.  Þessar tvær æfingar sem allir kunna er hægt að gera hvar sem er og hvenær sem er og þær reyna á flesta vöðvahópa í líkamanum.  Ef þú ert byrjandi, getur verið gott að byrja bara á að gera eina af hvorri í dag og tvær á morgun og koll af kolli.

4. Minnkaðu skammtana.
Stæltir vöðvar geta verið vel faldir fyrir innan fitulag ef þú borðar jafnan of mikið.  Minnkaðu skammtana og veldu hollt og fjölbreytt fæði sem samanstendur af miklu grænmeti, ávöxtum, grófu korni, hollum fitusýrum og mögrum prótínum.  Sneiddu að mestu hjá hertri fitu, sætindum og rusl fæði.

5. Auktu trefjar í fæðunni
Trefjarík fæða ýtir undir að fæðan komist hraðar í gegnum meltingarveginn og kemur í veg fyrir hægðatregðu og meltingarvandamál.  Þrútinn maga og vökvasöfnun í líkamanum má oftar en ekki rekja til lélegrar meltingar.  Með því að halda meltingunni í góðu standi eru frekar líkur á því að halda maganum sléttum og lekkerum.

6. Drekktu vatn
Drykkir innihalda fullt af hitaeiningum og geta verið lúmskir hvað varðar hlutdeild þeirra í fitusöfnun.  Stefndu að því að drykkir þínir skiptist í 80% vatn og 20% aðra drykki.  Láttu áfengi af öllu tagi og gosdrykki að mestu eiga sig.  Ferskir safar, te og einn og einn kaffibolli ætti að vera aðal uppistaðan í 20% hlutanum þínum.

pic-pa-photo-jupiterimages-234848104.jpg7.  Njóttu þín!
Berðu höfuðið hátt.  Um leið og þú réttir úr þér með bakið beint, líturðu strax miklu betur út.  Veldu þér sundföt sem fara þínum líkamsvexti.  Vel sniðin fatnaður sem passar þér vel getur gert gæfumuninn á sama hátt og of stutt eða of þröng föt geta skapað ægilega óeftirsóknarverða ásýnd. 
Mundu svo eftir sólarvörninni, sólgleraugunum og jákvæða hugarfarinu og njóttu þín í botn!

P.s.  Fríir prufutímar í Hreyfingu í boði.  Sjá hér