c

Pistlar:

2. apríl 2014 kl. 23:25

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Geta allir fengið flatan kvið?

six-pack-abs.jpgLengi hefur þótt eftirsóknarvert að fá flatan, skorinn kvið líkt og myndin hér til hægri sýnir.  Ef slegið er inn í Google leitarvélina "flat abs" koma um 9.6 milljón niðurstöður!  Áhugavert er því að velta því fyrir sér hve auðvelt er í raun að ná slíku formi og er það öllum kleift?

Reyndin er sú að það er ekki á allra færi, a.m.k. ekki án gríðarlegrar fyrirhafnar, vinnu og aga og það eru nokkrar ástæður fyrir því.  Fólk er mismunandi í laginu, með ólíka líkamsgerð, þ.e. líkaminn safnar mismikilli fitu á ákveðna líkamshluta. Sumir eiga auðvelt með að skera niður fitu af kvið á meðan aðrir eiga afar erfitt með það en hafa e.t.v. mjög fituskerta handleggi eða læri.  

Hér eru nokkur lykilatriði sem mögulega eru að gera þér erfitt fyrir að fá flata kviðinn sem þig dreymir um:

Erfðarmengið
Ef þú hefur erfðrarfræðilega tilhneigingu til að safna fitu framan á kviðinn þá mun þér reynast erfiðara að losa þig við fituna þar en t.d. þeim sem safna mestri fitu á læri og mjaðmir.  En vissulega með stífri þjálfun og afar öguðu mataræði getur þú náð mjög góðum árangri.  Stærð og lögun líffæra getur einnig haft áhrif á að kviðveggurinn verður framstæðari og eftir máltíðir getur maginn verið útþaninn af lofti og vökva.  Maginn er alltaf flatastur fyrst eftir að þú vaknar á morgnana.

Hátt fituhlutfall
Þú kannast e.t.v. við auglýsingarnar í gegnum árin; "magabaninn" "ab-roller" og fleiri.  Því hefur verið marglofað að notendur tækjanna fái þvottabrettiskvið með því að stunda æfingarnar í aðeins fáar mínútur á dag.   Jú, þvottabrettið verður e.t.v. til.... en ef það er fitulag yfir því, þá er það ósýnilegt.  Sama hvað þú gerir margar uppsetur eða aðrar kviðæfingar, þú munt ekki sjá þvottabrettið í speglinum.  Staðbundnar kviðæfingar styrkja kviðvöðvana en brenna ekki staðbundinni fitu af kviðsvæðinu.

Þjálfun á meðalálagi
Æfingar s.s. létt skokk og hjólreiðar á meðal álagi eru góðar til að auka þol og þjálfa hjartað en ekki besta leiðin til að "bræða" fituna af kviðnum.  Krefjandi snöggálags þjálfun er betur til þess fallin að losa þig við kviðfituna, því með þeim hætti brennir þú í heildina fleiri hitaeiningum m.a. vegna eftirbruna.  Kröftug alhliða styrktarþjálfun er einnig frábær leið til að auka grunnbrennslu og losna við ístruna.

Mataræðismistök
Sagt er að þvottabrettið verði til í eldhúsinu og það stemmir. Ef þú ert ekkert að spá í mataræðið þá muntu seint skarta öfundsverða þvottabrettinu, þó að þú gerir allt annað rétt.  Það er gjarnan vanmetið hve mikilvægt mataræðið er til að ná topp árangri.  Margir halda að ef þeir æfa nógu mikið þá sé óþarfi að spá mikið í fæðið, þeir geti borðað nokkurnveginn hvað sem er og samt komist í fanta gott form.  Það er ekki svo.  Rétt mataræði er lykilatriði.  Losaðu þig að mestu við sykur, gosdrykki og sætindi og hafðu uppistöðuna trefjarík kolvetni s.s. grænmeti og ávexti, egg, kjúkling, fisk, magurt kjöt, hnetur, fræ og avokadó.  Borðaðu reglulega og í hófi.

Streita og þreyta
Óregla á svefni, svefnleysi og streita getur verið fitandi.  Streita og svefnleysi hækka streitu hormónið cortisol.  Cortisol hvetur til fitusöfnunar og sérstaklega er talið að það geti auki kviðfitu.  Ef þú ert að gera allt annað rétt og virðist ekki ná að minnka mittismálið ættirðu að rýna betur í svefnmynstrið þitt.  Færðu að jafnaði 7-8 tíma svefn?  Ef ekki ættirðu að breyta því hið snarasta heilsu þinnar vegna.  

Í stuttu máli
Það reynist ekki öllum auðvelt að ná fituhlutfalli líkamans svo lágu að kviðurinn verði flatur og þjálfaðir kviðvöðvarnir sjáist vel undir húðinni. Genin og líkamsbyggingin hafa sitt að segja um það.  En ef þú fylgir ofangreindum ráðum getur þú sannarlega náð þínum besta árangri og þegar allt kemur til alls þá  er ekki víst að þér muni finnast lífið betra þó þér takist að ná "þvottabrettinu" sýnilegu og mögulega skynsamlegra að setja sér raunhæfari markmið í heilsuræktinni.

agusta@hreyfing.is

Smelltu hér til að fá frítt gestakort í Hreyfingu