c

Pistlar:

23. apríl 2013 kl. 19:09

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hver hefur sinn djöful að draga

Þegar maður er manneskja, en ekki mús, hefur maður veikleika sem manni geðjast, öllu jafna, ekkert sérstaklega vel að. Maður vill ekki kannast við að fresta öllu fram á síðustu stund eða taka gagnrýni illa. Hvað þá að maður drekki of mikið eða sjái alltaf lífið þannig að grasið sé grænna hinum megin við lækinn. Maður horfist ekki í augu við að vilja ganga í augun á öllum heiminum og þá tilfinningu að maður passi aldrei inn, hvar sem er og hvenær sem er. 

En allir hafa sinn "djöful" að draga. Galdurinn er að hætta að draga hann á eftir sér. Hann getur verið svo þungur í taumi! Fyrsta skrefið í því ferli er alltaf að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður drattist með eitthvað á eftir sér sem er að verða of þungt í taumi. Taka ábyrgðina á því að vera með þennan skrattakoll í eftirdragi!

Þeir stjórnendur sem ná lengra en aðrir eru oft þeir sem ná að horfast í augu við skrattakolla sína og þora að sýna að þeir hafi veikleika. Maður treystir þeim betur sem þora að vera þeir sjálfir. Enn betur treystir maður þeim sem hafa sætt sig við og unnið með veikleika sína því þá getur maður slappað af í návist þeirra! 

Næsta skref er að horfa framan í skrattakollinn. Viðurkenna að maður hafi, sem dæmi, mikla þörf fyrir viðurkenningu annarra eða þoli illa gagnrýni. Þá getur maður farið að gera eitthvað í málnum. Næst þegrar að maður hefur þörf fyrir að gera eitthvað eingöngu til að þóknast öðrum þá hefur maður val um að framkvæma samkvæmt vana og skemmta þar með skrattakollinum. Eða - gera sér grein fyrir af hverju það er óþægilegt að upplifa höfnum og halda svo áfram. Sumir hafa nefnt þetta að bjóða skrattakollinum upp í lífsrútuna okkar og vita af honum en láta hann ekki stjórna för. Svona eins og þegar maður gerir sér grein fyrir að maður drekki of mikið þá getur maður ákveðið að fara í meðferð, eða hætt. Um leið og maður er hættur og þar með búin að bjóða skrattakollinum upp í rútuna þá stjórnar hann ekki lengur.

 Það er bara þetta með að horfast í augu við sjáflfan sig sem getur verið soldið flókið......