c

Pistlar:

9. september 2013 kl. 10:20

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Ungt og leikur sér og setur öryggið á oddinn

Mín kynslóð ólst upp við kjarnorkuvá. Við vorum alin upp í skugga kalda stríðsins og ég man eftir að hafa hugsað mjög dimmar hugsanir um hvernig lífið á jörðinni yrði þegar kjarnorkusprengjan "myndi" falla. Við lærðum um ógnina og skynjuðum hana sterkt. Lífið var viðkvæmt og ástandið hættulegt.  Þegar við urðum unglingar þá tók ungt fólk að deyja úr undarlegum sjúkdómi. Alnæmi umræðan varð mjög áberandi og margir urðu skelkaðir enda þarna ekki komin fram þau lyf sem nú eru til. Ég man eftir að hafa farið sem fulltrúi "ungu" kynslóðarinnar í Kastljós, heill þáttur fjallaði um alnæmi eða AIDS eins og það var þá nefnt. Ég fór ekki vegna þess að ég stundaði svo villt kynlíf heldur líklega vegna félagsmálaþátttöku í Kvennó. Við sáum að það yrði að selja öllum þá hugmynd að nota smokkinn.  Allt í einu varð smokkurinn ekki lengur eingöngu getnaðarvörn heldur vörn gegn lífshættulegum kynsjúkdómum. Mín kynslóð varð að læra að nýta smokkinn. Þeir sem voru frægir á þessum tíma voru fengnir til að auglýsa smokkinn á veggspjaldi sem vakti mikla athygli. 

Þetta útskýrir kannski af hverju mín kynslóð er soldið að flýta sér að lifa lífinu ... kjarnorkuvá og alnæmisvá vofðu yfir okkur á viðkvæmum aldri! En ég er ekki sálfræðingur og get ekki farið svona djúpt.

Ástæðan fyrir því að ég fór að hugsa um þetta er að á leið minni í vinnuna einn daginn urðu tveir notaðir smokkar, tveir! Á sitt hvoru horninu .. ja, hérna, hugsaði ég með mér þar sem ég var hokin í herðum að berjast móti vindi.. ætli manni verði ekki kalt af því að nýta þetta svona undir berum himni? En svo brosti ég út undir annað og hugsaði að barátta okkar fyrir því að smokkurinn yrði nýttur sem best hefði greinilega borið árangur. Þetta er ungt og leikur sér með öryggið á oddinum. Þannig á það líka að vera! Það mætti hins vegar kasta honum að loknu ánægjustundinni en það er önnur Ella og líklega næsta barátta okkar: Plastnotkun og endurvinnsla.

Eigið góðar stundir og setjið öryggið á oddinn!