c

Pistlar:

30. október 2013 kl. 16:59

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Gjöf hins smáa

Þegar maður fer í burtu, að heiman, þá saknar maður þess hversdagslega. Að elda kvöldmat meðan gamla gufan mallar fréttirnar. Að strjúka nýklipptum drengjakoll. Að kyssa ástvin sinn. Að drekka nýlagaðan kaffibolla og lesa blöðin. Að Að ganga sömu götuna og taka eftir árstíðarskiptum. Að setjast niður við kvöldverð með fjölskyldunni. Að raða þvotti í skápa. Að kveikja á kertum í vondu veðri og horfa á vindinn leika sér um tré og veröld alla. Að leggjast til hvílu á sinn kodda.

Þegar einhver kveðjur þá saknar maður þess smáa. Bros og glettni, knús og litur augna. sameiginleg sögubrot sem alltaf er hlegið að. Peysan sem manni þótti ljót eða sérstakur talandi. Símtöl og langar samræður, gönguferðir og það sem gert var í hversdeginum.

Hið hversdagslega er eins og öryggisnet sem leggst yfir tilveru okkar og við tökum ekki eftir fyrr en við förum úr þeim aðstæðurm. Eins og fiskur í vatni þá gerum við ráð fyrir því sem er eins dag eftir dag. Stillum vekjaraklukkuna og vöknum á sama tíma við sömu daglegu athafnirnar. Hver dagur er eins og bútur í mósaíkmynd sem myndar hið stórkostlega eða líf okkar. Hver bútur svo mikilvægur en samt gleymum við að þakka fyrir hið hversdagslega. Það er ekki fyrr en við verðum eins og fiskur á þurru landi sem við gerum okkur grein fyrir því sem mestu máli skiptir: Hið smáa.

Nú þegar nóvember kuldinn og myrkrið leggst yfir er gott að huga að því að gera hið smá á eins fagran máta og unt er. Dúka borð, kveikja kerti. Nota fína stellið, fallegu rúmfötin og silfrið og klæða sig í fínu (og hlýju) klæðin sín. Safnast saman og njóta. Gefa eins og maður lifandi. Gefa tíma og athygli, gefa bros og gefa hlýju á köldum degi. Hlú að og næra það sem á að vaxa í vor.

Gera hvern bút í mósaíkmyndinni fagran og skínandi sérstakan, á sinn hversdagslega máta.