c

Pistlar:

22. janúar 2014 kl. 17:03

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Eru of þung/ur? Losaðu þig við nokkur kíló

Endur fyrir löngu var ég með megrúnarklúbb sem hét: Njótum lífsins. Það var mjög skemmtileg reynsla og við skemmtun okkur hið besta og margir losuðu sig við mörg kíló. Þannig er að mörg okkar eru alltof þung, á brún og brá. Ef þú vilt þá getur þú losað þig við mörg kíló af röngum hugmyndum.

Ég er í sjálfsskaparvinnu (með áherslu á að skapa..) þessa dagana. Ég vinn að því að losa mig við kíló af þessum og hinum viðhorfunum sem hafa þyngt mig. Hér eru dæmi. Eitt kíló af því að finnast ég þurfa að gera, hitt og þetta. Annað kíló af því að vera með allar heimsins áhyggjur á herðunum og finnast að ef ég sé ekki til staðar 150% prósent þá muni heimurinn hrynja til grunna. Kíló af því að vera alltaf að og annað af því að finnast allt vera "hinum" að kenna.

Ég hef lært að ég þarf alltaf af og til að létta á mér og létta mig af þessum fyrirframgefnum hugmyndum. Hugmyndum um sjálfa mig sem ekki eru lengur þess virði að burðast með. Ég legg mig fram um að finna hvaðan þær spretta og oftast eru þær sprotnar frá sjálfri mér. Sumir ganga tólf sprorin til létta á sér, aðrir finna einhvern göngufélaga og stuðningsaðila til að létta undir með sér.

Ég kokka upp ástríðuna og finn hvernig kærleikurinn vex með hverri nýrri uppskrift. Ég veit nefnilega, eftir að hafa verið með megrunarklúbb, að það er alltaf best að létta á sér með umhyggju og kærleik. Ég elda eftir nýjum uppskriftum og krydda með nýjum hugmyndum. Á sjö ára fresti endurnýjar líkaminn sig allur, hver fruma líkamans, allar saman, takk fyrir takk, verða nýjar. Við getum líka endurnýjað hugmyndir okkar umh hvað við getum. Sérstaklega eftir að hafa losað okkur við kíló af sársauka, kíló af kvíða og þungum þönkum. Við getum.

Ég græði og græði, sjálfa mig, af takmarkandi hugsunum. Legg inn og veit að ég er örugg, elskuð og að allt er eins og það á að vera. Hver þumlungur af sjálfri mér breytist reglulega og ég get breytt þankagangi mínum. Kíló fyrir kíló. Það getur þú líka. Prófaðu bara :-).

Heilum og græðum garðinn okkar fyrir vorkomuna :-)