c

Pistlar:

20. febrúar 2014 kl. 10:27

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Sjálfsblinda

Ég sagði við dóttur mína um daginn að hún væri einstök. Hún var fljót að benda mér á að það væri ekki hægt að vera einstakur þvi allir væru einstakir! "Já en..." svo brást mér rökræðurnar.. 

Ég legg stundum persónuleikapróf fyrir fólk. Kannski ekki ef það dettur inn í kaffi hjá mér en ef ég er að kenna þeim eða með það í ráðgjöf. Það er ótrúlega skemmtilegt að reyna að "getttta" hvernig fólk er, áður en maður leggur próf fyrir það. Stundum hef ég rétt fyrir mér en oft ekki. Allir eru einstakir.

Þegar niðurstöðurnar eru klárar og fólk sjálft fær þær er það oftast nokkuð sammála niðurstöðum. Stundum kemur fyrir að eitthvað kemur á óvart en á heildina kannast það við sjálft sig. Það sem er skemmtilegt er, hins vegar, það sem þeim finnst sjálfsagt. "Auðvitað þarf ég að hreyfa mig mikið, til að mér liði vel. Það þurfa allir að hreyfa sig til að þeim líði vel!". Ég reyni að útskýra að það séu ekki ALLIR þannig, sumir geta alveg hugsað sér að sleppa því að hreyfa sig. Þeir sem eru ekki með þennan þátt (þörf fyrir líkamlega hreyfingu) sterkan hjá sér finnst jafnvel að það sé stórhættulegt að hreyfa sig. Það fólk segir "hreyfa sig! það er of metið, þessir íþróttamenn eru allir með ónýt hné! Eða slasa sig á skíðum! Það er stórhættulegt að hreyfa sig of mikið, mér líður mun betur án þess, ég skil ekki þetta fólk sem er alltaf hlaupandi, undan hverju er það að hlaupa?"  

Þeir sem, til dæmis, mælast sterkir í því sem kallast "status", eða þörf fyrir að vera sérstakur, finnst nauðsynlegt að líta vel út og eiga falleg föt sem helst er hægt að sjá að séu dýr og sérstök. Þeir segja hluti eins og "finnst ekki öllum gaman að eiga fallega hluti? Ég held að allir séu sammála um að það sé frábært að vera á Saga klass í flugvélinni." Nei, segi ég, ekki ALLIR. Sumum finnst þetta ekki skipta neinu máli að vera sérstakur eða hafa það sem er kallað status. Það fólk klæðir sig bara í þau föt sem eru næst hendinni. Skiptir engu máli hvort það eru dýr eða fín föt, myndu aldrei fara á Saga klass í vélinni, finnst það bara of dýrt eða óþægilegt. Það fólk segir "ég skil bara ekkert í þessu snobbaða fólki sem kaupir sér dýra og fína hluti og situr á Saga klass, ég meina, allir vita að þetta er bara yfirborðslegt fólk." Nei, ekki ALLIR segi ég ...... enn og aftur!

Svona erum við einstök og alveg blind á að ALLIR séu ekki nákvæmlega eins og við. Blind á aðra, ölum börnin okkar upp í því sem ALLIR vita að skiptir máli (lesist eins og ég vil láta ala mig upp). Stjórnum fólki þannig eins og  ALLIR vilja láta stjórna sér (lesist ég vil láta stjórna mér). Göngum um heiminn og horfum á ALLA eins og við vitum hvað ALLIR vilji. Samt er hver og einn einstakur og við öll haldin sjálfsblindu.

Gaman að esssssuu....