c

Pistlar:

9. ágúst 2014 kl. 19:50

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Fáum við þá að sjá homma og lesbíur?

Sex ára sonur minn var nokkuð spenntur að fara í gönguna í dag. Hann vildi fá að sjá hommana og lesbíurnar í göngunni. Við stóðum og nutum þess að horfa á litríka og stolta fánabera ganga og hjóla hjá. Við hittum systur hans sem gékk stolt með pöbbunum sínum, þau gáfu okkur rósir. Við hittum föðursystur hans og hennar konu og börn og nokkra vini. Eftir nokkra stund sneri hann sér að mér og spurði "hvar eru hommarnir og lesbíurnar?  

Í hans huga voru þetta bara fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra. Honum finnst jafn eðilegt að fara til pabba stóru systur sinnar og tilkynna að hann sé svangur eins og að borða hér heima. Þegar honum er sagt að hann eigi ekki heima þar, segir hann, að hann eigi það víst því stóra systir hans eigi líka heima þar. Hann meira segja grunar að þeir séu líka pabbar hans. Hann á líka ömmur og afa hennar með henni. Hann sér ekki að það sé neitt öðruvísi þegar frænka hans og frændi koma með mæðrum sínum. Spyr ekki einu sinni - ekkert merkilegt við það, bara tvær mömmur. En hvar eru "hommarnir og lesbíurnar?" - Eitthvað mystískt við það sem hann kannast ekki við.

Þegar systir hans steig á svið og söng fyrir hundrað þúsund manns í dag sló stolt móðurhjartað örar. Ég fann líka fyrir stolti yfir því hvað mikið hefur unnist í baráttu samkynhneigðra. Mér var hugsað til systur minnar sem elskaði bæði karla og konur. Til vinar míns sem kom út úr skápnum fyrir þrjátíu árum. Til mágkonu minnar og fyrrverandi sambýlismans sem kom út úr skápnum fyrir næstum tveimur áratugum. Þá var það stærra mál en nú og ég sá ekki fyrir að dóttir okkar myndi einn daginn standa á sviði með hinum pabba sínum og syngja gleði og frelsissöng. "Ég er eins og ég er..". Mikið er dásamlegt að allir geti verið eins og þeir eru og þó að maður viti ekki nákvæmlega hvernig hommar og lesbíur líta út þegar maður er sex ára. Þá er það bara vegna þess að maður notar ekki nein orð yfir það sem er jafn hversdagslegt og pabbarnir og mömmurnar í kringum mann. Þau eru bara fjölskylda manns sem manni þykir hæsta hversdagslegt að tilkynna að maður sé svangur og ætlast til að fá að borða hjá.

Við erum rík að eiga hinsegin fjölskyldu - eða er hún hinsegin? Kannski er hún bara ósköp venjuleg nútímafjölskylda sem reynir að hlúa saman að ungviðinu og fylgjast að í lífinu. Göngum saman í gegnum lífið í kærleiks- og gleðigöngu og erum öll eins og við erum.

Til hamingju með daginn hommar og lesbíur.