c

Pistlar:

29. desember 2014 kl. 14:04

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Innri og ytri ástandsskoðun á áramótum

Þá árið er senn á enda og aldrei kemur það aftur. Ég fæ alltaf smá fiðring í magann á þessum tíma, bæði vegna of mikillar súkkulaðineyslu en líka svona spennu/kvíða tilfinningu. Nýtt ár, ný tækirfæri, árleg innri og ytri ástandsskoðun fer fram og áramótaheit í kjölfarið. Ég reyni að minna mig á að:

Það er ekki hægt að stytta sér leið í lífinu!

Það er ekki hægt að grenna sig um tuttugu kíló í janúar (ég er búin að prófa allar leiðir til þess..) á nýju ári, hætta að reykja og drekka áfengi og byrja í kross-fit - allt á sama tíma. Betra að dreifa þessu á allt næsta ár og best að gera það með samþykki og væntumþykju.

Öfund er eyðandi, nema maður nýti hana til sjálfskoðunar, og reiði og hatur er eins og að gleypa eitur og vona að aðilinn sem maður hatar detti niður dauður!

Besta áramótaheitið er ekki byggt á öðrum heldur en manni sjálfum (ekki, ég ætla að vera skipulögð eins og Gugga frænka sem ég hef alltaf öfundað af skipulagshæfninni). Hæfnin til að samgleðjast öðrum er mun líklegri til að gefa af sér. Besta áramótaheitið er því að samgleðjast alltaf öllum! Líka þegar manni langar sjálfum og hefur ekki tekist! Samgleðjast alltaf öllum! Líka þeim sem manni líkar illa við! Samgleðjast öllum - alltaf á árinu 2015!

Við vöknum öll stundum með ljótuna!

Við lifum á tímum þess að setja fram okkar besta andlit, þ.e. við byggjum upp ímynd á Twitter, Facebook, Instagram en þar setjum við ekki fram ljótuna. Þar eru við full sjálfstrausts og lífsgleði, en við bara vöknum með ljótuna af og til og lífið er ömurlegt og svart. Það er líka allt í lagi. Líf án depurðar, þunglyndis, leiða og ónota væri eins og regnbogi án dekkri lita. Eina sem er ekki í lagi er að halda að allir hinir séu glaðir, hamingjusamir og fallegir og fullir sjálfstrausts - alltaf! Á nýju ári set ég áramótaheit um að vera enn betri við sjálfa mig þegar ljótan bankar upp á. 

Vinir, makar og fjölskyldur styrkja ónæmiskerfið!

Náin vinur er eins og vítamínsprauta fyrir líkama og sál. Ræktum sambönd okkar á nýju ári og uppskeran er betri og heilbrigðari heili og hjarta. 

Fjárfestu á réttan máta!

Nánd, hreyfing, ný ævintýri, að prófa sig áfram, lærdómur, menntun, ferðalög, lestur. Samvera, markmiðasetning, áhugamál, gróðursetning, sparnaður, kynlíf, listir, söngur, tengjast náttúrunni, virk hlustun, innsæi. Allt þetta og meira til er gott að gera áramótaheit um. Ég er að vinna í því með óskaspjaldi og markmiðasetningu.

Svo mikið veit ég að árið 2015 mun færa þér og mér góðar stundir, gleði, tár, hindranir og hamingju. Það eru forréttindi að vera á lífi, um að gera að njóta þess.

Gleðilegt nýtt ævintýra ár, ég óska þér alls hins besta sem lífið hefur upp á að bjóða á því gullna ári 2015.