c

Pistlar:

27. apríl 2015 kl. 13:21

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Reunion

Það er eitthvað ljúft við að hitta gömlu bekkjafélaga sína aftur. Gamlar minningar vakna um leið og maður rýnir í andlit þeirra sem maður hefur ekki hitt í mörg ár. Ég er á reunion tíma núna þar sem hópar úr æskunni hittast og gera sér glaðan tíma saman. 

Í bandarískum kvikmyndum er þemað í reunion myndum einhvern veginn svona: Feita, ljóta stelpan kemur í reunion tónuð og brún og allir stara uppnumdir á hana og hún vinnur prinsinn. Eða nördinn sem var strítt (það heitir víst einelti núna) kemur til baka sem milljóner (hann er strákur og þarf ekki að vera mjór og tónaður - bara að hafa meikað það..) og allir falla í stafi og hann vinnur prinsessuna.

Raunveruleikinn er allt öðruvísi en í bandarískum bíómyndum (supprise!) - allir eru pínkulítið breyttir - sérstaklega af því að liðin eru þrjátíu, fjörtíu ár og fólk finnur að það þykir soldið vænt um hvort annað af því að sérhver aðili er hluti af sögu þess. Þeim sem var strítt eru flestir búin að gera það upp með öllu hinu "verð að taka til í bakpokanum mínum" þeir sem stríddu eru líka komnir yfir bömmerinn og flestir eru búinir að átta sig á að þegar maður er unglingur að fara í gegnum "hver er ég ..?" þá miðaði maður við hópinn (sem hittist aftur í reunion-inu). Þess vegna er hópurinn svo mikilvægur sögu hvers og eins, mótunarárin og áhrifin mikil.

Unglingurinn, hélt að engum nema honum liði eins og hann, svona öðruvísi og eitthvað órótt yfir því að vera ekki alveg eins og allir hinir. Allir hinir voru bara með þetta, að mati unglingsins. Eftir öll þess ár er lífið búið að kenna manni að öllum leið þannig á unglingsárunum (bara líffræðin..) og að núna fyrst (á seinnihluta fimmtugsaldurs) er maður búin að gera sér grein fyrir því að spurning unglingsins, hver er ég? Hefur ekkert með hina að gera heldur allt með mann sjálfan. Þess vegna er reunion svona skemmtilegt og gefandi því allir hafa lagt sitt til verksins að móta hvort annað, eins og fallegt mósaík verk. Hver og einn hluti af manni sjálfum og uppvextinum en það er í höndum manns sjálfs að svara spurningunni, hver er ég? Og þá fer lífið fyrst að hefjast á manns eigin forsendum.