c

Pistlar:

5. febrúar 2016 kl. 18:06

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Unga fólkið að drepast úr leiðindum í vinnunni!

Þeir sem eru fæddir u.þ.b. milli 1980 til 2000 tilheyra kynslóð sem á ensku er kölluð "millennials" eð Y-kynslóðin til aðgreiningar frá fyrri kynslóðum. Þessir einstaklingar hafa alist upp í tæknivæddari heim en nokkur önnur kynslóð og "tala" þess vegna reiprennandi "tæknísku" á öllum sviðum. Þau eru meðvitaðri um heiminn en við vorum og kunna á fjarstýringar eins og við hin kunnum á símaskífuna í gamla daga.

Þau hafa sum verið alin upp af metnaðarfullum foreldrum sem sendu þau í öll heimsins tómstundir til að skerpa þau og sýna þeim hvað þau eru sérstök. Vandamálið er að þegar þau byrja að vinna leiðist þeim sumum bara svo mikið í vinnunni, samkvæmt nýjum bandaríarískum rannsóknum.  

Við erum nefnilega búin að ala þau upp við að þau séu svo sérstök en svo þegar þau koma í vinnuna þá átta þau sig á að samkeppnin er hörð og að þau eru ekki sérstakari en hver annar, þrátt fyrir að hafa fengið þau skilaboð næstum allt lífið (frá okkur foreldrunum). Þess vegna eru þau algjörlega óundirbúin fyrir gagnrýnina og höfnunina sem er hluti af hversdagslegu vinnuumhverfi. Ekki nóg með það heldur fá þau á tilfinninguna með því að horfa í kringum sig á samfélagsmiðlunum að jafnaldrar þeirra séu að "meika" það í hamingjukasti í örmyndböndum á Snapchat eða myndum á Instagram og Facebook. Það getur reynst erfitt að átta sig á að bak við ímyndina er ekki endileg sami glamúrinn og framhliðin á samfélagsmiðlum sýnir. 

En fyrirtæki þurfa á unga fólkinu að halda og því er mikilvægt að stjórnendur átti sig á hvernig á að taka á móti þeim. 

Við, hinir metnaðargjörnu foreldrar, ættum kannski að slaka aðeins á og gefa unga fólkinu tækifæri til að hrasa af og til. Hjálpa þeim að átta sig að setja raunhæfar væntingar um að öll störf séu þannig að stundum sé hundleiðilegt - það er partur af prógramminu. 

Fyrir stjórnendur þá er nauðsynlegt að þekkja hvaðan hvati fólks sprettur til að ná að leysa úr læðingi orku þeirra sem eru orkumestir :-).

En þetta er rannsókn unnin í Ameríkunni þar sem Donald Trump bíður sig fram og einhver vill kjósa hann, svo kannski er þetta allt öðruvísi en hér. Efni í nýja rannsókn.

Lifið heil.