c

Pistlar:

20. desember 2016 kl. 9:47

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Göngum fyrir þá sem ekki gátu gengið lengra

"Föllum á kné", segir í einu fallegasta jólaljóði okkar; Ó helga nótt. Myrkrið er allt umlykjandi og nætur langar á norðuhveli jarðar á þessum tíma. Flestir finna fyrir margræðum tilfinningum, þeir sem komnir eru af barnsaldri finna fyrir barninu í sjálfum sér og stundum, trega og eftirsjá eftir liðnum tímum.

Aldrei er eins áberandi missir þeirra sem farnir eru frá okkur. Jólin geta líka gert þá sem eru einmanna og vansælir enn örvæntingafyllri en áður þar sem ætlast er til að fólk sé ánægt og glatt. Þá getur myrkrið smogið inn í hjarta og hugsanir. 

Þeir sem þekkja af eigin raun hugsanir um að taka eigið líf vita hversu sárt það er að sitja einn eða ein og finnast sem maður sé aðskilin frá öllum öðrum. Þeir sem þekkja af eigin raun að missa frá sér fólk sem tekur eigið líf vita að eftir sitjum við hin í örvæntingu og sorg yfir því sem ekki var sagt. Þjáningin sem fylgir þeim sem eftir lifa linar fátt nema tíminn. Tíminn gefur okkur örlítin skilning og kannski von um að viðkomandi sál hafi fengið frið. Hins vegar eru jólin sá tími sem ýtir alltaf við og ýfir sárið aðeins. 

Á vetrasólstöðum er myrkrið dimmast og nóttinn lengst. Á þeim tímamótum munu Pieta Ísland standa fyrir göngu inn í ljósið við Skarfagarð í Reykjavík. Gengið verður að vitanum með kyndla og tendruð ljós í minningu þeirra sem hafa tekið líf sitt. Við munum ganga fyrir þau sem ekki treystu sér til að ganga hér með okkur lengur. í átt að hækkandi sól. Ég hvet ykkur að koma og ganga með. Saman getum við fagnað aukinni birtu og yl og gengið til jóla og leyft því sem er að vera eins og það er.

Hér er slóðin til upplýsingar: https://www.facebook.com/events/344163089300274/

"Vort trúarljós þá veginn okkur vísi.."