c

Pistlar:

21. október 2015 kl. 19:37

Sveinn Valfells (brunanbuhr.blog.is)

Mætir almenningur afgangi hjá Bjarna Ben?

Það er hægt að gera margar athugasemdir við yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra í Kastaljósi RÚV í gær. Meðal annars gaf Bjarni í skyn að skuldaslóði föllnu bankana sem gæti lagst á hagkerfið væri erlend fjárfesting. Það er ný kenning í hagfræði að halda því fram að taka við skuldum annara sé fjárfesting. Hann talaði einnig um að stöðugleikaskattur leiddi til þess að kröfuhafar tækju út gjaldeyri umfram stöðugleikaframlög, það er ekki rétt. Öllum er hulið nema fjármálaráðherra hvernig neikvæð erlend staða upp á 15-20% af landsframleiðslu veikir ekki þjóðargjaldmiðilinn. Bjarni býður kjósendum varanlega lækkun á lífskjörum með bros á vör.

Fjármálaráðherra virðist hafa gleymt öllum helstu loforðum ríksstjórnarinnar um afnám hafta. Af máli hans mátti ráða að mikill munur sé á kynntri stefnu og framkvæmd áætlunarinnar. Ekki er hægt að sjá annað en að áhættufjárfestar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur eigi að fá forgang úr höftum. Á sama tíma og áhættufjárfestum verður hleypt úr höftum hefur afnámsferli fyrir almenning, atvinnulíf og lífeyrissjóði ekki einu sinni verið kynnt. Eiga heimilin að mæta afgangi?

Stöðugleikaskattur er öllum í hag

Stjórnvöld buðu áhættufjárfestum leið framhjá gjaldþroti og höftum, svokallaðan stöðugleikaskatt. Ólíkt því sem fjármálaráðherra gaf í skyn er stöðugleikaskattur ekki „tekjuöflun“, hann á að vernda raunhagkerfið gegn kollsteypu þegar höftin eru leyst af þrotabúum föllnu bankanna. Skatturinn er öllum í hag, honum er ætlað að greiða útgöngu áhættufjárfesta en jafnframt íslensks almennings, atvinnulífs og lífeyrissjóða.

Fjármálaráðherra kynnti stöðugleikaskattinn í Hörpu 8. júní og flutti frumvarp um skattinn á Alþingi. Að mati Bjarna er sú lausn sem hann sjálfur mælti fyrir og samþykkti nú orðin „afarkostur“. Núna finnst honum eðlilegt að aðstoða áhættufjárfestana við að sniðganga skattinn með stöðugleikaframlögum sem veita mikinn afslátt frá skattinum. Þar með er Bjarni í mótsögn við kynningu stjórnvalda þar sem því var haldið fram að skatturinn og stöðugleikaskilyrðin væru jafngildar leiðir. Á þeirri forsendu voru lögin um stöðugleikaskatt samþykkt. Ef stöðugleikaframlögin eiga gera sama gagn verður að sýna fram á að þau séu jafngild skattinum.

Hvar er rökstuðningurinn?

Bjarni á eftir að sjá „endanleg“ stöðugleikaframlög en í Kastljósi fullyrti hann samt að þau leystu hengjuvanda bankanna án þess að leggja fram gögn eða greiningar. Hvar er nú gagnsæið og viðurkennda aðferðafræðin sem lofað var í kynningu ríkisstjórnarinnar? Ef Bjarni telur að hagkerfið muni „komast í skjól“ með núverandi tillögum um stöðugleikaframlög, af hverju sýnir hann ekki fram á það?

Fjármálaráðherra hræðist ekki dómsmál en er tilbúinn að borga hundruð milljarða til að losna við þau.

Tillaga Glitnis að leggja fram hlut í Íslandsbanka minnkar hengjuna úr þrotabúum bankanna. Eftir standa samt 300-400 milljarðar. Það erfitt að sannreyna að verið sé „að sjá fyrir vandann“ eins og Bjarni fullyrti. Fortíðarvandi föllnu bankanna er óleystur, hrunið óuppgert og heldur áfram að leggjast á alla Íslendinga til framtíðar.