c

Pistlar:

26. janúar 2015 kl. 11:20

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Peningar hafa aldrei verið vandamál í mínu lífi...

Moneymoneymoney

Einn af mínum fyrstu vinnuveitendum sagði oft: „Peningar hafa aldrei verið vandamál í mínu lífi – en peningaleysi hefur hins vegar oft komið sér illa.“ Orð hans eru lýsandi um viðhorf landans til þess að ræða peningamál. Haltu þessu fyrir þig er viðkvæðið, hvort sem fólk á meira en nóg eða hvorki í sig né á.

 

Halda peningaáhyggjurnar fyrir þér vöku?

Hefurðu legið andvaka og horft á vekjaraklukkuna silast áfram meðan peningaáhyggjurnar vaxa eins og arfi innra með þér? Fjölmargir eru í þessarri stöðu en þegja um það þunnu hljóði. Enda ekki til siðs að ræða peningamál sín opinberlega. Ég þekki dæmi þess að fólk hafi þekkst í fjölda ára og umgengist töluvert án þess að hafa nokkru sinni rætt sín persónulegu peningamál. Hins vegar má auðvitað ræða fjármál hins opinbera og skuldavanda heimilanna. Bara ekki um einstaklingana sem búa inni á þessum heimilum þar sem skuldavandinn ríkir. Þar setjum við mörkin!

Kominn tími til að skipta út hugmyndum

Efnahagshrunið hafði áhrif á okkur öll – á einn eða annan hátt. Við erum jú hluti af þessu samfélagi. Það sem við þurfum að horfast í augu við er að við sitjum uppi með peningahugmyndir sem margar hverjar nýtast okkur illa eða jafnvel alls ekki. Hvernig þá? Jú, við hrunið varð til flokkunarkerfi sem er við lýði enn í dag. Það var „óráðsíufólkið“ sem hafði farið offari í neyslu í góðærinu. Svo voru það „hinir skynsömu“ sem höfðu fundið á sér að eitthvað gruggugt var á seiði og tekið út allan sparnað fyrir hrun svo þau „töpuðu engu“. Svo voru það þeir sem voru með erlendu lánin. Hinir sem fluttu til útlanda strax eftir hrun og „vildu ekki taka þátt í uppbyggingunni“ og svo framvegis. Hvort sem þú skilgreinir þig sem hluta af einhverjum þessarra hópa eður ei, þá sitjum við öll uppi með einhvers konar peningahugmyndir eftir hrunið.

Ný hugsun – ný útkoma

Það hefur sýnt sig að hugsun okkar hefur áhrif á tilfinningar og líðan okkar hefur áhrif á gjörðir okkar. Samlegðaráhrifin koma svo fram í þeirri útkomu sem við sjáum í lífi okkar. Fjárhagsleg heilsa okkar helst í hendur við andlega og líkamlega heilsu okkar.

Þeir sem fara í gegnum markþjálfunarnámskeið hjá mér, upplifa mikinn létti þegar gamlar og íþyngjandi peningahugmyndir fá að víkja fyrir nýjum.

Nú er kominn tími til að endurskoða þínar peningahugmyndir og að losa sig við þær sem þjóna ekki lengur tilgangi í lífi þínu. Í mars ætla ég að bjóða námskeið þar sem tilgangurinn verður að losna undan peningahugmyndum fortíðar og taka upp nýjar og valdeflandi hugmyndir sem stuðla að fjárhagslegu heilbrigði. Það er einlæg trú mín að allir hafi burði til að verða góðir í peningamálum. En allar breytingar hefjast innra með okkur.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira