c

Pistlar:

2. nóvember 2015 kl. 7:52

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Gjöf til þín: lykilspurningarnar þrjár

Albert Einstein benti á þá staðreynd að við gætum ekki leyst vandamál með sama hugsunarhætti og við notuðumst við þegar vandræðin urðu til. Það er einmitt það, segjum við en veltum þó fyrir okkur hvaða hugsunarháttur dugi til. Við erum jú vanadýr eins og fram hefur komið og gerum gjarnan meira til að viðhalda óbreyttu ástandi en við gerum til að breyta.

Áskoranir

Öll getum við borið kennsl á eitthvað í lífi okkar sem betur má fara. Ef til vill eru það kringumstæður okkur, ytri áskoranir eins og samskipti eða innri áskoranir eins og til dæmis skortur á ákveðni. Það er segin saga að ef við upplifum að kringumstæður okkar stjórni líðan okkar, þá endurspeglast það í ytri áskorunum eins og til dæmis hæfni okkar til að eiga árangursrík samskipti og einnig í innri áskorunum eins og óákeðni. Þessi keðjuverkun gengur bæði réttsælis og rangsælis og því má segja að ef við upplifum áskoranir á einhverju af áðurtöldum sviðum, þá hefur það svo sannarlega áhrif á öllum sviðum.

Tökum dæmi um manneskju sem er óánægð í vinnunni. Verkefnin sem henni eru falin eru henni ósamboðin. Hún er margsinnis búin að segja yfirmanneskju sinni að hún vilji áskoranir og að hún fái þær ekki í núverandi starfi. Þrátt fyrir að hafa talið sér trú um að hlutirnir fari nú að batna og að hún eigi nú barasta að vera ánægð með það sem hún hefur, kvarnast smátt og smátt úr vinnugleðinni og metnaðinum. Lengi vel beið hún þolinmóð eftir stöðuhækkun en nú er þolinmæðin á þrotum. Óánægja hennar gerir nú vart við sig í samskiptum hennar á vinnustaðnum. Þrátt fyrir að hún reyni sitt allra besta til að leyna líðan sinni og sýna af sér faglega hegðun eins og ætlast er til af henni. Innra með henni bærast tilfinningar af ýmsum toga og reiðin ólgar undir niðri.

Vakin og sofin

Þegar svo er komið sögu að við erum vakin og sofin yfir áskorunum okkar, er kominn tími til að grípa inn í. Þá finnum við okkur knúin til að taka orð Einsteins bókstaflega og ættleiða nýstárlegan hugsunarhátt sem fleytir okkur yfir hjallann. En hvernig er það gert?

Ég hef tileinkað mér aðferð sem ég kalla spurningaaðferðina. Aðferðin er einföld en einkar árangursrík. Þeir sem nota hana hafa upplifað það að eiga auðveldara með að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Með nálgun spurningaaðferðarinnar reynist auðveldara að greina hismið frá kjarnanum og því fer minni tími til spillis þar sem forgangsröðunin verður skýrari. Þeir sem nota aðferðina eiga einnig auðveldara með að ná markmiðum sínum á tilskyldum tíma.

Lykilspurningarnar þrjár

Mig langar að gefa þér gjöf í tilefni dagsins. Ég býð þér að heimsækja vefsíðuna mína og sækja þér eintak af Lykilspurningunum þremur sem eru kjarni spurningaaðferðarinnar. Með því að tileinka þér aðferðina og spyrja þig spurninganna, öðlastu tækifæri til að takast á við þær áskoranir sem þú stendur frammi fyrir. Hvort sem þú upplifir að þær helgist af aðstæðum þínum eða flokkist undir ytri eða innri áskoranir, þá getur spurningaaðferðin reynst vel.

„Þetta er mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt!“, sagði refurinn í Dýrunum í Hálsaskógi, svo eftirminnilega. Sömu orð gætu hljómað innra með þér á þessarri stundu. Það eru mjög eðlileg viðbrögð þegar lausn við vanda okkar blasir við, hvað þá án endurgjalds! Við höldum gjarnan í óbreytt ástand eins og haldreipi á neyðartímum. Þrátt fyrir að ástandið sé orðið svo óbærilegt að það jaðrar við neyðarástand. Það er merkileg staðreynd en staðreynd engu að síður.

„Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst“, segir máltækið. Svo endilega þiggðu gjöfina frá mér. Heimsæktu vefsíðuna og vistaðu eintak af Lykilspurningunum þremur á skjáborðið þitt í dag. Þar er einnig í boði að vista hljóðútgáfu. Megi lykilspurningarnar þrjár reynast þér eins vel og þær hafa reynst mér. Njóttu vel!

http://www.eddacoaching.com 

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira