c

Pistlar:

25. janúar 2016 kl. 12:47

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hver eru þín peningamarkmið?

Flest setjum við okkur markmið með einhverjum hætti, þó ekki sé nema í formi áramótaheita. Oft er þó minna um efndir. Rannsakendur hafa leitað að ástæðunum sem liggja að baki vanefndunum og komist að ákveðnu orsakasamhengi sem gott er að hafa í huga. Rannsóknir hafa sýnt að aðeins 5% fólks skrifar niður markmið sín en það er talinn vera lykilþáttur í markmiðasetningu. Góðu fréttirnar eru þær að með því að skrifa niður markmiðin eru líkurnar á því að mistakast hverfandi. Með þessarri einföldu og áhrifaríku gjörð, að skrifa niður, eru líkurnar nefnilega 95% að þú náir settu marki.

Von og eftirvænting

Ég man þegar ég las um þessar niðurstöður í fyrsta skipti að ég fylltist von og eftirvæntingu. Vá, hugsaði ég með mér. Ég þarf bara að skrifa niður markmiðin og þá eru 95% líkur á að ég nái þeim. Magnað – ég ætla að byrja strax!

Síðan þá hef ég skrifað niður fjölmörg markmið og upplifað oftar en ekki að ég næ þeim með undraverðum hætti. Það er nefnilega leyndardómur fólginn í því að taka ákvörðun og fylgja henni eftir.

Markmiðasetning er einfaldlega það. Að taka ákvörðun og skrifa hana niður. Búa svo til áætlun um að hrinda í framkvæmd því sem gera þarf, svo það sem þú hefur ákveðið verði að veruleika. Það er svo einfalt og dásamlega áhrifaríkt. Það hef ég sannreynt margsinnis.

Markmiðasetning í hversdeginum

Margir þeirra sem byrja í markþjálfun hjá mér verða mjög hátíðlegir þegar talið berst að markmiðasetningu. Það er eins og það hvíli einhver heilagleiki yfir henni. Ef til vill tengist það því að áramótaheit og markmiðasetning eru gjarnan sett undir sama hatt. Áramótin eru jú hátíðleg tímamót.

Reyndin er sú að regluleg markmiðasetning sem tilheyrir hversdeginum, skilar meiri árangri þegar til langs tíma er litið heldur en áramótaheit sem strengd eru og gleymast svo í dagsins önn.

Peningamarkmið

Margir setja sér markmið um ákveðna innkomu í formi aukinna viðskipta eða hærri launa. Sumir setja sér markmið tengd fjárfestingum, aðrir tengd sparnaði og svo mætti lengi telja. Það er allt gott og gilt og í raun nauðsynlegur hluti af vandaðri markmiðasetningu.

Ef þú fyllist kappi við tilhugsunina um að safna peningaupphæð sem þú getur svo notað í ákveðnum tilgangi, þá getur það verið góður hvati til að ná markmiðum á öðrum sviðum. Markmiðasetning er þess eðlis að mörg markmiðanna haldast í hendur. Ef þú setur þér háleit markmið um lífstíl, þarf það að endurspeglast í þeirri innkomu sem þú ætlar þér. Að sama skapi er ekki ráðlegt að einblína á peningana eingöngu því þú þarft að hafa skýrt markmið um það hvað þú ætlar að nota peningana í.

Það er til dæmis mun líklegra að þeir sem gefa hluta af innkomu sinni til góðra málefna, efnist og geti þannig haldið áfram að láta gott af sér leiða. Nýleg rannsókn staðfestir ennfremur að jákvæðar hugmyndir um peninga haldast í hendur við jákvæða peningahegðun.

Nú er þér ekkert til fyrirstöðu – byrjaðu að skrifa niður markmiðin þín!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira