c

Pistlar:

18. apríl 2016 kl. 11:48

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hvernig mælirðu þitt sjálfstraust?

Sjálfstraust er heillandi fyrirbæri. Þrátt fyrir að margir myndu skilgreina sjálfstraust sem hugtak og því óáþreifanlegt, má færa rök fyrir að sjálfstraust spili sterka rullu í mannlegum samskiptum og í upplifun okkar af lífinu. Þar á ég bæði við það sjálfstraust sem við búum yfir og einnig sjálfstraust annarra. Að sama skapi má segja að skortur á sjálfstrausti hafi áhrif á samskipti okkar og upplifun.

Hvernig mælirðu þitt sjálfstraust?

Mörg erum við nokkuð meðvituð um hvort sjálfstraust okkar er mikið eða lítið hverju sinni. Auðvitað hlýtur það alltaf að vera mælanlegt á þeim skala sem við þekkjum hjá okkur sjálfum, því erfitt er að bera eigið sjálfstraust saman við sjálfstraust annarra. Ástæðan þess er helst sú að ekki er allt sem sýnist. Mörg þekkjum við að hafa virkað örugg á aðra þó reyndin hafi verið sú að við skulfum á beinunum. Að sama skapi getum við upplifað aðra manneskju sem sjálfsörugga þó hún sé í raun óörugg örugg.

Sjálfstraust okkar hangir saman við sjálfsmynd okkar að mjög miklu leyti og því er gott að hafa í huga að sjálfstraustið getur borið hnekki þegar við erum í aðstæðum þar sem við erum illa áttuð. Margir hafa upplifað þetta á nýjum vinnustað eða í kjölfar annars konar breytinga. Í svoleiðis tilfellum erum við oft meðvituð um að þetta er tímabundið ástand og að sjálfstraustið eykst samhliða því sem við venjumst aðstæðum.

Oft kemur skortur á sjálfstrausti einnig fram þegar við stöndum frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum. Skortur á sjálfstrausti getur einnig verið tilkominn vegna langvarandi samskipta sem teljast óheilbrigð. Ef skortur á sjálfstrausti er langvarandi áskorun í þínu lífi, er ráðlegt að leita aðstoðar.

 

Hvernig mælirðu sjálfstraust annarra?

Gott sjálfstraust endurspeglar sterka sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. En þessi þrenning endurspeglar einnig virðingu fyrir öðru fólki.

Fólk sem virkar hrokafullt eða leyfir sér að koma fram við aðra af óvirðingu, gerir það oft vegna þess að sjálfsmynd þess er skert að einhverju leyti. Sjálfstraust þessa fólks er því í rauninni mjög lítið og birtingarmyndin eru þessi óheilbrigðu samskipti. Mér finnst sjálfri gott að hafa þetta í huga þegar ég finn mig í aðstæðum þar sem fólk kemur fram af óvirðingu. Hegðun viðkomandi endurspeglar í raun og veru skort á sjálfsvirðingu. Því þeir sem bera raunverulega virðingu fyrir sjálfum sér og hafa sterka sjálfsmynd, þeir hafa sjálfstraust til að koma vel fram við aðra. En þeir sem eru fastir í neti ljótleikans í samskiptum, eru oft þeir sem finnst þeir ekki eiga betra skilið. Það getur því verið lykill að því að umbreyta slíkum samskiptum að setja skýr mörk og segja frá því að svona samskipti séu manni ekki að skapi. Þarna er þó mikilvægt að muna eftir að taka alls ekki þátt með því að æsa sig eða fara í vörn. Mundu umfram allt að samskiptamáti viðkomandi hefur ekkert með þig að gera heldur endurspeglar hann skerta sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsvirðingu hins aðilans.

Leiðir til að auka sjálfstraust

Eitt af því sem ég velti fyrir mér við undirbúning þessa pistils, var hvort það væri munur á kynjunum þegar sjálfstraust er annars vegar. Mér fannst meðal annars mikilvægt að kanna það með tilliti til þess að benda á leiðir til að auka sjálfstraust.

Það kemur sennilega fáum á óvart að heilmikið hefur verið skrifað um sjálfstraust kvenna og hefur það gjarnan verið borið saman við sjálfstraust karla. Lengi vel var sjálfstraust kvenna almennt talið minna en sjálfstraust karla. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að það eru aðrar breytur en kyn sem eru sterkari þegar sjálfstraust er annars vegar. Sjálfstraust ræðst semsagt frekar af einstaklingsbundnum þáttum og umhverfi. Því má segja að sjálfsmyndarvandi og skortur á sjálfstrausti séu menningartengdur vandi eða nokkurs konar kerfisvilla.

Þess vegna eru góðar fyrirmyndir og menningarlegar breytingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi einstaklinga, einstaklega uppbyggjandi fyrir sjálfstraustið.

En sértu hins vegar að leita að einföldu ráði til að auka sjálfstraust þitt, ætla ég að deila einu sem hefur reynst mér vel. Fyrir nokkrum árum rakst ég á fyrirlestur þar sem sálgreinir fjallaði um sjálfstraust. Hún nefndi dæmi af sjálfri sér og sagðist óörugg þegar hún væri á leið í boð þar sem hún þekkti fáa eða jafnvel engan. Hún sagðist þá fara með því hugarfari að hún ætlaði að vera til þjónustu fyrir aðra. Hún sagðist beina sjónum að þeim sem virtust utangátta og hefja samræður á að spyrja um hagi viðmælandans. Hún einbeitti sér gjarnan að því að tala inn í aðstæður fólks og veita stuðning og uppörvun. Með þessu móti gleymdi hún sjálfri sér og eigin óöryggi á meðan hún lyfti náunganum upp og sýndi samhug í verki. Ég hef prófað þetta og get staðfest að það virkar.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira