Pistlar:

14. júní 2016 kl. 14:46

Helga Guðrún Óskarsdóttir (eiginframleidni.blog.is)

Fyrirtækið “Ég”

Eins og flestir Íslendingar þá hef ég unnið ótal störf í gegnum tíðina. Við Íslendingar erum svo heppnir að fá að reyna mismunandi störf frá unglingsaldri. Ég hef unnið á heimili fyrir fötluð börn, á leikskóla, á sjúkraþjálfunarstöð, í verksmiðju, hjá hugbúnaðarfyrirtæki og við kennslu. Í öllum þessum störfum hef ég þurft að nota sköpunargáfu mína og greind til að leysa úr nýjum vandamálum daglega og megintilgangurinn verið að miðla eða nota þekkingu sem ég hef aflað með starfsreynslu og menntun. Ég er þekkingarstarfsmaður.   

Sem þekkingarstarfsmaður ber ég sjálf ábyrgð á minni eigin framleiðslu, þar sem afurðin er framlag minnar þekkingar. Enginn er með sömu þekkingu þar sem við túlkum upplýsingar á mismunandi hátt eftir heimsmynd okkar, fyrri þekkingu og reynslu. Þekkingarstarfsmenn eiga þannig þekkinguna sína og taka hana með sér þegar þeir skipta um vinnu. Hvert okkar er því eins og lítið fyrirtæki sem þarf að huga að eftirfarandi þáttum m.a.:

  • Viðskiptaáætlun
    • Hver er sýn og stefna fyrirtækisins? (Hver er ég? Hvert vil ég fara? Af hverju?)
    • Hver er afurðin? (Hvaða færni hef ég? Hverjir eru mínir styrkleikar? )
    • Hverjir eru hagsmunaaðilarnir? (Á hverja hef ég áhrif? Hverjir hafa áhrif á mig?)
    • Markaðsáætlun (Hvað er framlag mitt?)
    • Söluáætlun (Hvernig kem ég mér á framfæri?)
  • Rekstaráætlun (Hvernig kem ég hlutum í verk? Hvernig er best að skipuleggja sig? Hvernig uppfylli ég skuldbindingar mínar?)

Það getur tekið á að vera þekkingarstarfsmaður þar sem ekki er hægt að stimpla sig inn og út úr vinnu fyrir fyrirtækið „Ég“. Okkur finnst að við getum, eða ættum að geta, gert allt í lífinu – ræktað okkur sjálf, verið heilbrigð, litið vel út, haldið fallegt heimili og verið góðir foreldrar, makar, vinir, starfsmenn, samfélagsþegnar, o.s.frv. Hverju atriði á þessum lista fylgir aragrúi af skuldbindingum sem við þurfum að uppfylla og hafa stjórn á í fyrirtækinu „Ég“. Mikið af þeirri streitu og vanlíðan sem við finnum fyrir orsakast af illa skilgreindum og illa stýrðum skuldbindingum.

Stofnaðu fyrirtækið „Ég“ til að forgangsraða því sem skiptir máli í lífinu, bæta frammistöðu þína í vinnu og gera þér auðveldara að takast á við það sem kemur upp á í lífinu. Horfðu inn á við, gerðu viðskiptaáætlun og rekstraráætlun. Byggðu upp kerfi til að stjórna þínum skuldbindingum, t.d. með markmiðum, áætlunum og aðgerðarlista í forgangsröð. Láttu fyrirtækið “Ég” hjálpa þér að afkasta því sem þú hefur ásett þér að gera í lífinu. Leggðu áherslu á að gera það sem veitir þér ánægju og fullnægir þörfum þínum og ekki gleyma að njóta hvers augnabliks. Ekki leyfa illa stýrðum skuldbindingum að yfirtaka líf þitt.

Vertu sérfræðingur í að reka fyrirtækið „Ég“.

Helga Guðrún Óskarsdóttir

Helga Guðrún Óskarsdóttir

Helga Guðrún býður upp á námskeið og fyrirlestra fyrir fyrirtæki og stofnanir um hugmyndafræðina "Þín eigin framleiðni" sem hún þróaði í meistaraverkefninu sínu, sjá heimasíðu: https://eiginframleidni.com/

Hún er einnig með facebook síðu þar sem hún fjallar um eigin framleiðni, https://www.facebook.com/eiginframleidni .

Meira