c

Pistlar:

19. apríl 2014 kl. 7:14

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Grænt og gott fyrir húðina

lavera_faces_beautybalm.jpgHugsanlega er afstætt að tala um eitthvað grænt fyrir húðina, en orðið grænt hefur þó öðlast það gildi að standa fyrir náttúrulegar, lífrænar og vottaðar vörur, svo það ætti að skiljast. Ég hef nánast eingöngu notað slíkar húðvörur frá því árið 1990, þegar ég átti og rak verslunina Betra líf og byrjaði að flytja inn krem frá Earth Science, en verslunin býður ennþá upp á vörur frá þeim framleiðanda.

Nokkur önnur náttúruleg snyrtivörumerki hafa verið að öðlast fastan sess á snyrtivörumarkaðnum undanfarin ár, eins og til dæmis vörurnar frá Lavera. Þeir selja vottaðar vörur með "organic" vottun, en vörurnar eru einungis unnar úr jurtum sem þeir rækta sjálfir fyrir framleiðsluna. Á grænu vaktinni í þessari viku rakst ég á nýja vörutegund frá þeim sem heitir Beauty Balm og er litað, létt dagkrem með kjarna úr lífrænt ræktuðum acai berjum og litarefni úr náttúrulegum steinefnum. Athyglisvert er að lesa á umbúðirnar og sjá að í kreminu er hvorki silíkón, parafín né jarðefnaolía, engin gervirotvarnarefni og ekkert paraben. Ég hef einmitt áður fjallað um að þegar við sjáum lista yfir það sem varan er ÁN, gerum við okkur grein fyrir að þetta er flest til staðar í öðrum vörum í sama vöruflokki.

Paraben efnin eru þekkt fyrir að virka eins og hormónahermir í líkama okkar og valda ruglingi í líkamskerfinu, sem leiðir í mörgum tilvikum til þess að frumur líkamans fara að ráðast hvor á aðra og til verða sjálfsónæmissjúkdómar. Sjálfsónæmissjúkdómar eru nú eins og faraldur og virðast leggjast meira á konur en karla. Í Bandaríkjunum er talað um að ein af hverjum níu konum greinist með sjálfsónæmissjúkdóm á móti einum af hverjum tólf karlmönnum. Helstu sjúkdómar sem flokkast undir sjálfsónæmi eru: Liðagigt, vefjagigt, lúpus eða rauðir úlfar, astmi, kransæðasjúkdómar, Chron's og aðrir meltingarsjúkdómar, MS og vanvirkur skjaldkirtill, en vanvirkni í skjaldkirtli er ótrúlega algeng meðal kvenna hér á landi.

Heimildir: The Autoimmune Epidemic eftir Donna Jackson Nakazawa
Fylgstu með GRÆNUM APRÍL á Facebook

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira