c

Pistlar:

1. október 2014 kl. 21:13

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Komin af stað í CLEAN

img_6091.jpgÉg byrjaði á hinum eiginlega CLEAN detox-kúr í dag og verð að segja að nú þegar þetta er skrifað, sit ég mett eftir tvær fljótandi máltíðir og eina í föstu formi og er viss um að næstu 20 dagar eiga eftir að verða ánægjulegir. Margir eru forvitnir um hvað ég er að borða og hvaða bætiefni ég sé að taka og ég skal upplýsa eitthvað af því í pistlum mínum meðan á þessum CLEAN detox-kúr stendur. Hins vegar er ómögulegt að koma heilli bók til skila í stuttum pistlum.

Markmiðið með detox-kúr er að losa líkamann við uppsöfnuð eiturefni, sem oft geymast í fituvefjum líkamans. Hluti af þeim eru þungmálmar, en ég hef mælst með nokkuð magn af þeim, þótt ég léti taka allar silfurfyllingar úr tönnunum fyrir tuttugu árum síðan. Staðreyndi er sú að við erum alltaf útsett fyrir mengun, alla daga, allan daginn og ég hef þar að auki ferðast mikið til landa þar sem mengun er mikil eins og til Kína, Perú og Egyptalands svo dæmi séu nefnd.

Ég byrja því daginn að taka 3 töflur af Chlorella (Sunny Green) með glasi af vatni, ásamt multidophilus 12 (Solaray) og skjaldkirtilslyfjunum, en ég hef nú þegar náð að minnka skammtinn í hálfa töflu.

Svo fæ ég mér búst með berjum eða spínati, prótíndufti o.fl. og blanda því í möndlumjólk. Ég setti líka möndlusmjör í bústið í morgun og það var dásamlegt. Gerði það reyndar líka síðdegis og hér er uppskriftin að  því.

  • 1 stór handfylli af frosnum bláberjum
  • 1 handfylli af spínati
  • smávegis af kanil
  • 1 matskeið hrátt kakóduft (the raw chocolate company)
  • 2 matskeiðar möndlusmjör (notaði þetta frá Biona)
  • rúmlega hálf ferna af kókósvatni frá Cocowell - eina kókosvatnið sem er lífrænt vottað
  • 3 dropar af stevíu
  • 1 ½ matskeið af Pulsin' hrísgrjónaprótíni


Mangað góður drykkur. Gerði mér svo frábæran hádegisverð en uppskriftina að honum er að finna HÉR.

Eftir kvöldmat borða ég ekkert þar til næsta morgun. Læt semsagt líða 12 tíma frá því ég borða kvöldmat og fram að morgunmat. Tek inn 6 hylki af Triphala (Solaray) fyrir svefninn, en það eru trefjatöflur og fæ mér 2 matskeiðar af ólífuolíu og drekk á eftir því bolla af volgu vatni með sítrónusafa. Ég og fleiri hafa hvatt fólk til að gera slíkt á morgnana, en Dr. Alejandro Junger ráðleggur það á kvöldin, sem er kannski í samræmi við þá kenningar kínverskrar læknisfræði að tími lifrar og gallblöðru sé á kvöldin en olían og sítrónusafinn eiga að örva þessi líffæri til að hreinsa sig.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira