c

Pistlar:

24. október 2014 kl. 0:37

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Infrarauð djúphreinsun

Eitt af því sem ráðlagt er í HREIN detox-kúrnum er að fara eins oft og hægt er í infrarauðan saunaklefa. Ástæðan er sú að í infrarauðu sauna ná geislarnir um fjóra sentimetra inn í húðina, en undir henni liggja fitufrumur okkar. Hitinn frá infrarauðu geislunum örvar fitufrumurnar til að losa sig við þann úrgang sem þær hafa safnað í sig. Í infrarauðu sauna örvast líka fitukirtlarnir til að losa sig við skaðleg eiturefni eins og jarðolíuefni, kvikasilfur og aðra þungmálma. Mannfólkið er þannig gert að það safnar upp þeim eiturefnum sem líkaminn losar sig ekki við strax eftir að þau hafa komist inn í hann. Ein ástæða þess að infrarautt sauna eru svona gott gagnvart ótal sjúkdómum er að FAR bylgjurnar frá infrarauða ljósinu ná að losa um eiturefni úr líkamanum, sem eru oft orsök ótal heilsufarsvandamála.

Loksins, loksins þegar formlegum detox-kúr var lokið hjá mér eftir tuttugu og einn dag, lét ég verða af því í gær að kaupa mér mánaðarkort í spainu á Grand Hótel Reykjavík, en þar er einmitt infrarauður saunaklefi. Er nú búin að fara tvisvar í hann og stefni á að fara daglega á næstunni til að fá virkilega djúphreinsun, því ég held áfram í HREIN detox-kúrnum í tíu daga í viðbót.

Á vefsíðu MindBodyGreen eru taldir upp sex hlutir sem eru góðir við infrarautt sauna.

1.     Afeitrun
Sviti er ein náttúrulegasta leið líkamans til að losa sig við eiturefni og er því mikilvægur þáttur í hvers konar afeitrunarferli. Þegar infrarauð sauna er borin saman við hefðbundna finnska saunu, er gert ráð fyrir að sú infrarauða hjálpi þér að losna við allt að sjö sinnum meira af eiturefnum úr líkamanum.

2.     Slökun
Notkun á infrarauðu sauna leiðir til slökunar, því hún hjálpar til við að koma jafnvægi á kortisolmagn líkamans, sem er aðal streituhormón líkamans. Hitinn í saunaklefanum hjálpar þér líka að slaka á vöðvum og losa um spennu í öllum líkamanum.

3.     Verkjastilling
Ef þú þjáist af vöðva- eða liðverkjum, getur infrarautt sauna dregið úr slíkum bólgum bæði með því að afeitra svæðin og eins með því að auka blóðflæði og slaka á vöðvunum.

4.     Þyngartap
Hitinn sem myndast í infrarauða saunanu veldur því að kjarnahiti líkamans eykst, sem leiðir til aukins hjartsláttar - líkt og þegar líkamsrækt er stunduð. Þegar líkaminn þarf að leggja meira á sig til að lækka kjarnahitann eða til að hald í við aukinn hjartslátt, brennir hann fleiri kaloríum sem leiðir til þyngdartaps. Í grein sem birtist í Journal of the American Medical Association var komist að þeirri niðurstöðu að í 30 mínútna infrarauðum saunatíma brenndi líkaminn um 600 kalóríum.

5.     Betra blóðflæði
Þar sem hitinn í infrarauðu sauna hækkar kjarnahita líkamans eykst jafnframt blóðflæðið. Stöðug notkun á infrarauðu sauna, einkum miðlungs-infrarauðu geislunum, getur aukið blóðflæðið, bætt vöðvameiðsl og losað um sársauka og bólgur eftir erfiðar æfingar.

6.     Húðhreinsun
Infrarauðir saunageislar geta hjálpað þér að hreinsa húðina með því að losa um eiturefni í svitaholunum og auka blóðflæði, sem leiðir til hreinni, mýkri og heilbrigðari húðar.

Heimildir MindBodyGreenCLEAN eftir hjartalækninn Alejandro Junger -  Sacred Roots Holistic Healing

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira