c

Pistlar:

30. október 2014 kl. 22:58

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Af hverju hreinsun?

Sumir velta fyrir sér af hverju ég sé að fara í gegnum svona langan detox-kúr og ég heyri komment eins og þau að fyrir nokkrum árum hafi ég nú verið að gera hitt og þetta sem hefði alveg bjargað heilsu minni og að ef ég sé alltaf í hollustunni af hverju ég þurfi þá að fara í hreinsun. Auðvitað velja allir hvað þeir vilja gera við líkama sinn og ég hef valið að vinna að því að gera hann sem heilbrigðastan, meðal annars með því að fara reglulega í hreinsun. Ég lít nefnilega svo á að líkaminn sé eins og hús sem við búum í og enginn hreinsar heimili sitt bara einu sinni og lætur þar við sitja.

Reyndar þrífa flestir heima hjá sér vikulega en sinna litlu um að þrífa líkamann. Samt er kannski mikilvægast að taka til þar, til að allt innra umhverfi hans verði þannig að frumur geti endurnýjað sig, að ónæmiskerfið sé sterkt og að við komum í veg fyrir að bólgur myndist, því þær hafa almennt svo slæm áhrif á heilsuna.

Ég hef lengi verið að takast á við candida sveppasýkingu en aldrei tekist alveg að losna við hana. Ekki fyrir alls löngu fékk ég þá skýringu að candidan þrífist á þungmálmum í líkamanum og meðan okkur tekst ekki að losa okkur við þá, losnum við ekki heldur við candida sveppasýkinguna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að losa líkama minn við þungmálma hef ég undanfarin fjögur ár alltaf mælst með þá, allt þar til í síðustu mælingu, nú eftir að HREIN detox-kúrnum lauk. Í mínum huga er það einn mesti heilsufarslegi sigur sem ég hef unnið. Væntanlega koma þungmálmarnir aftur, því þeir eru alls staðar í umhverfi okkar - og þá þarf ég að taka til að ári liðnu eða svo til að hreinsa þá út á nýjan leik.

Í dag tók ég svo eftir einu enn sem hefur breyst í þessum HREIN detox-kúr og hreinsikúrnum sem ég held áfram að vera í. Ég hef í fjölda ára verið með sprungu í miðri tungunni og þegar ég hef borðað ákveðinn mat hefur mig sviðið í hana. Einhvern tímann talaði Hallgrímur Magnússon um að slíkar sprungur tengdust hjartanu. Á netinu fann ég upplýsingar um að fyrsti 1/3 af tungunni gæfi til kynna hvað væri að gerast í hjarta og lungum. Miðju 1/3 hlutinn tengdist hins vegar maga og milta. Á síðari árum hef ég stundum fengið óreglulegan hjartslátt og skyndilega orðið andstutt. Maginn hefur alltaf verið vandamál hjá mér og ég var ekki há í loftinu þegar ég sagði við móður mína að "mér væri svo illt í damblanum" og tíu ára gömul fékk ég magasár. Miltað sér um að hreinsa blóðið og styrkja ónæmiskerfið og ég var bara rúmlega þrítug þegar ég var fyrst greind með það sem kallsat sjálfsofnæmi, en það gefur einmitt til kynna að ónæmiskerfið sé ekki að virka sem skyldi. Tel það því vera afar gott merki að sprungan í tungunni sé að gróa saman.

Heimildir: Natural Health Techniques og Healthline

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira