c

Pistlar:

2. desember 2014 kl. 10:43

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Eitraðar tilfinningar

Mér finnst svo merkilegt að hlusta á skilaboð líkamans. Hann hefur svo sannarlega talað til mín á sinn hátt á því tveggja mánaða tímabili sem ég hef verið að afeitra hann, fyrst með HREIN detox-kúrnum og síðan í framhaldi af því með sérstökum jurtaefnum. Fyrst voru það ýmis líkamleg einkenni sem ég fann fyrir, sem tengdust að mínu mati því að líkaminn var að vinna að því að endurnýja og gera við líffæri eins og lifur, gallblöðru, ristil og smáþarma svo einhver dæmi séu nefnd. Það sem síðar kom voru svo ýmsar tilfinningar.

Oft er talað um að fólk borði ofan í tilfinningarnar sínar og ég hef svo sannarlega gert það í gegnum tíðina. Ég hef líka borðað ofan í líkamlegan sársauka, því á tíma taldi ég mér trú um að ef ég borðaði lakkrís, myndi verkurinn í mjóbakinu hverfa. Dásamleg sjálfsblekking það, sem leiddi til þess að ég borðaði mikið af lakkrís því verkurinn kom auðvitað aftur og aftur. Nú nýverið fékk ég einmitt bakverk og fékk þá óstjórnlega löngun í lakkrís, svo minningin lifir lengi í líkamanum. Í þetta sinn slapp ég þó við að fylgja lönguninni eftir.

Líkamlegur sársauki er auðvitað tilfinning, en tilfinningasvið okkar spannar stóran skala. Reiði sem ég hélt ég væri alveg búin að losa mig við blossaði upp hjá mér þegar ég heyrði nýverið lag í morgunútvarpinu. Bara þetta eina lag fékk mig til að skilja að ég var enn að burðast með reiði yfir einhverju sem gerðist fyrir mörgum árum síðan. Ég staldraði við og spurði sjálfa mig hvort ég ætti að halda áfram að leyfa þessari reiði að eitra líf mitt? Reiði sem snerti ekki einu sinni þann sem reiðin beindist að heldur sat öll í mér. Louise Hay segir að reiðin sitji í lifrinni, svo kannski hafði þessi reiði haft áhrif á lélega starfsemi lifrar hjá mér. Til að tryggja að svo yrði ekki lengur settist ég niður og vann smá fyrirgefningarvinnu og losaði mig við hana.

Mögnuð gleði og hamingja sem fylgdi því að fatta að ég væri laus við þetta eitur.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira