c

Pistlar:

7. desember 2014 kl. 10:08

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Er ekkert ólæknandi?

Allt frá því ég las HREIN (CLEAN) bókina eftir Alejandro Junger fyrst í ágúst á þessu ári hefur ein setning úr henni komið aftur og aftur komið upp í huga minn. Hann segir á einum stað að ekki séu til ólæknandi sjúkdómar, bara ólæknandi fólk. Mér fannst þetta djúpt á árina tekið og það finnst sennilega mörgum öðrum, en reynsla mín eftir 2ja mánaða tímabil, sem gagngert hefur miðað að því að lækna það sem almennt telst ólæknandi hefur fengið mig til að skipta um skoðun.

Þegar ég var um það bil þrjátíu og fimm ára var ég greind með sjálfsónæmi, það er að frumur líkamans gera ekki grein á óvinveittum aðskotaefnum og eigin frumum og ráðast á sig sjálfar. Mér var líka sagt að við því væri ekkert að gera annað en taka inn bælandi lyf, sem í raun bæla bara einkennin, en laga ekki orsökina. Ég valdi að taka þau ekki og hóf ýmsar tilraunir með mataræði og annað til að sjá hvað ég gæti gert sjálf. Þrátt fyrir tilraunirnar hrakaði heilsu minni jafnt og þétt, þar til ég kynntist blóðflokkamataræðinu fyrir rúmum tíu árum síðan. Þá komst ég að raun um hvaða fæðutegundir höfðu kekkjandi áhrif á blóðið í líkama mínum og voru þar með að draga úr þjálni þess og möguleikum á að flytja næringarefni um hann.

Oft hef ég samt vikið út af því mataræði, einkum og sér í lagi þegar ég hef ekki viljað skera mig út úr hópnum – og gjarnan sagt sjálfri mér að ég hljóti að þola það í eitt skipti – en skiptin hafa stundum orðið mörg. Það hefur nefnilega tekið mig langan tíma að sættast við að ég þarf að gæta að mataræði mínu alla daga ef ég vil halda góðri heilsu. Þegar ég geri það stendur ekki á árangrinum.

Það sést best á þeim breytingum sem orðið hafa á undanförnum 2 mánuðum, en á þessu tímabili hef ég gætt að mataræðinu alla daga og tekið inn ýmis bætiefni til að styðja við það. Skjaldkirtillinn er orðinn virkur á ný (jibbý) en stefna mín í upphafi þessa ferlis var einmitt að losna af skjaldkirtilslyfjum, lifrin er orðin öflug og sterkari en hún hefur verið um langan tíma, smáþarmar og ristill í betra ástandi en þeir hafa áður mælst í og bólgur í líkamanum eru í lágmarki. Niðurstaðan úr mælingu sem ég fór nýlega í var “excellent” og það er í fyrsta sinn sem ég sé slíka útkomu. Með þessa reynslu í huga velti ég fyrir mér hvort Junger hafi rétti fyrir sér og engir sjúkdómar séu ólæknandi, heldur bara fólk, sem ekki vill gera það sem þarf til að öðlast bata.

 

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira