c

Pistlar:

11. desember 2014 kl. 10:41

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Nýjasta fíknin

Ég verð að viðurkenna að ég er mikið jólabarn. Þótt ég föndri ekki lengur allt frá september og fram í desember ýmislegt skraut fyrir jólin, saumi skraut á jólatréð eða útbúi jólagjafirnar að einhverju leyti sjálf, hefur stemmingin fyrir jólunum ekki minnkað með aldrinum. Í mínum huga fylgja þessum tíma ársins svo miklir töfrar, þegar ljós og fallegir munir lýsa upp skammdegið.

Þegar árlega er bætt einhverju við af jólaskrauti og árin verða mörg, stækkar safnið smátt og smátt. Svo stórt var það orðið að ég átti um sextán kassa (ekki litla) af jólaskrauti þegar ég flutti aftur til Reykjavíkur fyrir tæpum fimm árum. Þar sem engin von var til að ég gæti nýtt það allt sjálf í minni litlu íbúð, tóku synir mínir og tengdadætur stóran hluta þess í fóstur til frambúðar. Samt á ég meira en nóg til að skreyta heimilið þannig að þar séu jól um allt.

En árstíminn býr alltaf yfir sínum töfrum og áhuginn fyrir fallegu jólaskrauti hverfur ekkert. Þegar líða tekur að jólum finnst mér æðislegt að kíkja í búðir og skoða allt það fallega sem þar er að finna. Stundum fell ég í freistni og kaupi eitthvað, annað hvort fyrir mig eða þá til að gefa öðrum. Sennilega gengur þessi jólaskrautsáhugi minn aðeins fram af annarri tengdadóttur minni, þótt hún hafi lúmskt gaman af. Hún var nefnilega skellihlægjandi þegar hún greindi mig nýlega með nýja fíkn og sagði að ég væri jólaskrautsfíkill. Ég samþykkti það samstundis og er svo ánægð með þessa fíkn að þótt ég setji ákveðnar hömlur á hana, hef ég engan áhuga á að losna alveg úr viðjum hennar.

 

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira