c

Pistlar:

21. desember 2014 kl. 10:31

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Jólasósan

Ég fékk nýjan skilning á því hvað telst vera jólasósa nú fyrir skömmu þegar ég var í IKEA með sonardóttur minni. Eftir að hafa leikið sér í boltalandi og fengið mjúkdýr, sem héðan í frá heitir Magga prinsessubangsi, varð litla daman svöng. Við héldum því á veitingastaðinn og ég hélt ég væri að fara að kaupa handa henni kökusneið og djús, en aldeilis ekki.

“Ég vil svona kjöt með jólasósu,” sagði hún og benti á mynd af hangikjöti með hvítum jafningi á auglýsingaskiltinu. “Ertu viss um að þú viljir ekki frekar köku?” spurði ég og velti fyrir mér hvernig jólasósan myndi fara í maga lítillar stelpu klukkan rúmlega fjögur á eftirmiðdegi. Nei, jólasósa skyldi það vera og hún borðaði hangikjötið af bestu lyst, með kartöflum, baunum og rauðkáli meðan amman sötraði gulrótarsafa.

Væntanlega verða margir með svona jólasósu og ýmsar aðrar jólasósur á boðstólnum um jólahátíðina. Þeir sem eru með mjólkuróþol standa hins vegar frammi fyrir þeim vanda hvað á að nota í jólasósurnar til að bragðbæta þær í staðinn fyrir til dæmis rjóma. Ef ég gerði svona jólasósujafning, sem ég geri ekki, myndi ég nota hrísgrjónamjólk. Þegar kemur hins vegar að sósunum með kjötmetinu nota ég möndlurjóma frá EcoMil, sem er frábær lausn og gerir sósurnar dásamlega bragðgóðar. EcoMil möndlurjóminn er án soja, laktósa og mjólkurprótína og sættur með agave sírópi. Hann er að finna í flestum heilsuvöruverslunum og mörgum stórmörkuðum og mun pottþétt slá í gegn í mínum sósum þessi jólin.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira