c

Pistlar:

28. desember 2014 kl. 11:19

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Merkin sem við sendum líkamanum

Athyglisvert var að fylgjast með sjónvarpsfréttum RÚV í gær, þar sem drjúgum tíma var varið í að fjalla um meltingartruflanir gæludýra, sem höfðu fengið að gæða sér á jólamat okkar mannanna. Þar kom fram að dýrin þyldu hvorki reyktan mat né rjóma. Enginn talaði um að það sama gæti átt við um mannfólkið en nokkur metfjöldi þurfti þó á sjúkrabíl að halda til að komast undir læknishendur á aðfaranótt jóladags.

Enga umfjöllun fengu allir þeir sem enduðu með brjóstsviða, uppþembu, hægðateppu eða niðurgang af téðum jólamat, né heldur þeir sem fengu bjúg, aukna liðverki (gigtarverki), höfuðverki eða mígrenikast eftir að hafa gætt sér á dásemdunum. Og ekki heldur þeir sem fyllast slími í lungum og nefi og enda með slæmt kvef eða flensu, eins og margir kjósa að kalla viðbrögð líkamans við ofuráti jólanna.

Einu rannsóknirnar sem ég stunda þegar kemur að mataræði og líkamlegri vellíðan eru þær sem ég mæli á eigin líkama. Eftir að hafa verið á hreinsandi mataræði í langan tíma fyrir jól ákvað ég að leyfa mér að borða aðeins af jólamatnum. Því hefur á síðustu dögum farið ofan í minn maga matvara með glúteni, kartöflur, rjómalöguð sósa og rjómi með hrákökunni svo nokkuð sé nefnt. Ekki stóð á viðbrögðum líkamans. Bólgnir og aumir liðir í höndum og handleggjum, vægur höfuðverkur og einkenni um orkuleysi yfirtóku hann á örskotstíma. Sú staðreynd hefur sýnt mér að jafnvel ein máltíð á dag, af mat sem líkaminn þolir illa eða alls ekki ræður meiru en heilsusamlegri hluti dagsins.

Í mínum huga er því ekki spurning um það hvort, heldur hvaða áhrif fæðan hefur á líkama okkar. Fæðan er hlaðin boðefnum sem líkaminn bregst við. Í þeim prótínum, fitu og kolvetnum sem við setjum inn fyrir varir okkar eru merki (svo ég einfaldi málið aðeins) og í líkama okkar eru móttakarar fyrir þessi merki, sem annað hvort meta þau sem vini eða óvini og bregðast við fæðunni í samræmi við það. Því þarf að senda líkamanum réttu merkin svo hann sé heilbrigður og sterkur – og ég held að frekar lítið sé af þeim í því sem við köllum almennt jólamat.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira