c

Pistlar:

16. janúar 2015 kl. 16:17

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Sumt rætist, annað ekki

Ég hef ekki gefið mér mikinn tíma til að skrifa pistla eftir áramót, enda verið önnum kafin við önnur skrif, sem hafa tekið tíma minn allan. Líkt og margir aðrir landsmenn setti ég mér markmið um áramótin. Hef reyndar sett mér skrifleg markmið árlega í upphafi árs allt frá árinu 1985. Sum hafa verið raunhæf, önnur ekki. Sum hafa ræst, önnur ekki, eins og gengur og gerist. Samt skrifa ég alltaf niður ný markmið, helst á Nýársdag og fer svo yfir árangurinn að ári liðnu.

Ég brýt markmiðin mín niður í smærri einingar, þannig að ég hafi yfirsýn yfir hvað ég þarf að gera í hverjum mánuði til að ná stóru markmiðunum. Ég hef nánast alltaf skrifað niður lista yfir verkefni hvers dags fyrir sig og komist að raun um að ég er mun líklegri til að ná góðum árangri með því að beita slíkum vinnubrögðum. Þegar vinnulistann skortir, tapa ég fókus og þá verða dagarnir ekki eins markvissir.

Dagbækurnar mínar hafa ekki verið sérlega flóknar. Góðar gormaðar reikningsbækur hafa dugað mér vel. Bókunum mínum hef ég síðan getað flett fram og aftur og fundið símanúmer, punkta frá fundum og ýmsar aðrar upplýsingar og hugmyndir sem myndu hafa tapast ef ég hefði ekki skrifað þær niður.

Eins og fram kom hér í upphafi þá hafa sum af mínum markmiðum ræst, önnur ekki. Fyrir mörgum árum síðan tileinkaði ég mér þá lífsspeki að ef eitthvað gengi ekki upp hjá mér, væri það vegna þess að ég ætti að vera að gera eitthvað annað og ennþá betra. Sú lífsspeki gerir það að verkum að ef hlutirnir ganga ekki upp, er ég ekkert að svekkja mig, heldur byrja bara að leita að nýjum tækifærum.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira