c

Pistlar:

25. janúar 2015 kl. 22:58

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Framtíðarsýnin er engin lyf

Það styttist í að bókin HREINT MATARÆÐI fyrir líkama og sál eftir úrúgvæska hjartasérfræðinginn Alejandro Junger komi út hjá Bókaforlaginu Sölku. Ég þýddi hluta hennar, hef verið að lesa hana yfir og bíð spennt eftir að aðrir fái tækifæri til að kynna sér efni hennar. Þar kemur einmitt svo margt áhugavert fram. Ég stelst því til að birta tvær málsgreinar úr henni, því mér finnst felast svo sterk skilaboð í þeim. Þar segir Junger eftirfarandi:

“Framtíðarsýn læknavísindanna er ENGIN lyf. Ef aparnir töpuðu einn daginn því innsæi sem segir þeim að éta banana, myndu þá allt í einu koma fram á sjónarsviðið apanæringarfræðingar? Væntanlega ekki.

Sú fjölbreytta flóra sjúkdóma sem herja á mannkynið, alvarleiki margra þeirra og þjáningarnar sem fólk upplifir eiga aðeins við mannkynið. Í náttúrunni fæðast dýr, ferðast, éta, eðla sig og deyja af elli, meiðslum eða fyrir kjafti annarrar skepnu. Þar er ekkert krabbamein, hjartasjúkdómar, sykursýki, þunglyndi og sjálfsónæmissjúkdómar. Þessir sjúkdómar eru sérkenni mannkyns. Við greiðum háu gjaldi fyrir að fjarlægjast náttúruna og leggja jörðina undir. Náttúran líður nú afleiðingarnar og jörðin er í útrýmingarhættu.”

Þegar allt kemur til alls snýst þetta um það sama, hvort sem það er umhverfisvernd eða líkamsvernd. Ef við fjarlægjumst náttúruna, sem við höfum svo sannarlega gert með alls konar eiturefnanotkun og talið okkur geta gengið endalaust á gæði jarðar, þá líður ekki bara náttúran umhverfis okkur fyrir það, heldur líka náttúran í líkama okkar.         

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira